Í Ísbúð Omnom lifna ævintýrin við í brögðum og áferð og hægt er að fá sér smakk af ævintýralegum ísréttum sem koma hugarfluginu af stað. Í tilefni þess að nú líður senn að jólum og fyrsti í aðventu er á sunnudaginn hefur hin fræga Sara snúið aftur.
„Saran er komin aftur og verður í boði eitthvað fram í nýja árið í ísbúðinni okkar. Í ár eiga allir einstaklega ljúffenga, gulli slegna hátíðar Söru skilið; Söru sem drottningu sæmir. Fyllt Madagaskar vanillukremi og böðuð upp úr kaffisúkkulaði. Sitjandi efst í hásæti sínu, ofan á ljúffengum ísrétti með ilmandi mandarínu-súkkulaðisósu og karamellu ristuðu heslihnetukrömbli, trónir hún á toppnum líkt og kóróna jólanna,“segir Kjartan Gíslason súkkulaðigerðarmaður með meiru og segir jafnframt að Saran sé konungborinn óður þeirra til jólanna.
Í Sörunni er eftirfarandi góðgæti:
Drottningar Sara með vanillukremi og kaffisúkkulaði
Karamelluseraðar heslihnetur í mokkasúkkulaði
Mandarínu-súkkulaðisósa
Nú er bara að fara og njóta og finna bragðið af jólaævintýrunum.