Þetta er haft eftir honum í Morgunblaðinu í dag. Stundum hafa eldgos fylgt í kjölfar Grímsvatnahlaupa en ekki er hægt að segja til um hvort það gerist nú. Haft er eftir Eyjólfi að ólíklegt sé að um falska viðvörun sé að ræða eins og í fyrra. Þá hafi óheppni valdið því að mastur á nokkuð nákvæmu mælitæki fór að hallast og því mældist lækkun á íshellunni. „Það er ekkert svoleiðis í gangi núna. Það er greinilegt að það er sig núna,“ sagði hann.
Fréttablaðið hefur eftir Þorvaldi Þórðarsyni, eldfjallafræðingi, að það geti tekið tíma áður en í ljós kemur hvort hlaup sé að hefjast í Grímsvötnum. Hann sagði að þau teikn sem nú sjáist séu eins og þau sem oft boða hlaup. „Við sjáum sig á íshellunni, lækkun á yfirborði á Grímsvatni sjálfu, sem er stöðuvatnið ofan í öskjunni á Grímsvötnum. Ef það flæðir út úr henni og vatnið finnur sér leið undan ísnum þá tæmist hluti af Grímsvötnum, vatnið flæðir niður og kemur síðan neðan við endann á skriðjöklinum. Þetta getur tekið nokkra daga, jafnvel viku. Þá eykst bara vatnslagið, stundum mjög mikið,“ sagði hann og benti á að Grímsvatnahlaup leiði ekki endilega til goss.