fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fréttir

Réttarhöldin yfir morðingja Freyju hafin í Árósum – Hryllilegar lýsingar úr dómsal

Kristján Kristjánsson
Miðvikudaginn 24. nóvember 2021 10:00

Dómhúsið í Árósum og Freyja Egilsdóttir. Samsett mynd/DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Klukkan 9 að dönskum tíma (8 að íslenskum tíma) hófust réttarhöld í Árósum yfir Flemming Mogensen sem er ákærður fyrir að hafa myrt Freyju Egilsdóttur á heimili hennar í Malling á Jótlandi þann 29. janúar síðastliðinn. Hann er ákærður fyrir að hafa kyrkt hana, að hafa síðan hlutað lík hennar í sundur og grafið líkhluta í garðinum.

Réttarhöldin fara fram í dómsal 13  í dómhúsinu. Þegar blaðamaður mætti var salurinn þegar fullur af áheyrendum.

Fyrst kom Flemming Mogensen í vitnastúkuna og staðfesti hver hann væri og að hann hefði rætt við verjanda sinn. Því næst tók saksóknari til máls og fór hratt yfir ákæruna og rakti málavöxtu. Að Flemming hefði orðið Freyju að bana með því að kyrkja hana og síðan hafi hann hlutað lík hennar í sundur með sög og grafið líkhluta í garðinum. Hann fór einnig yfir þær kröfur sem eru gerðar í málinu. Saksóknari fer fram á ævilangt fangelsi en verjandinn að Flemming verði vistaður ótímabundið í fangelsi.

Því næst tók verjandi Flemming til máls og sagði að skjólstæðingur hans viðurkenni þau brot sem honum eru gefin að sök.

Því næst tók saksóknarinn aftur til máls og rakti það sem fram fór þegar gæsluvarðhalds var krafist yfir Flemming fyrr á árinu. Þar viðurkenndi Flemming að hafa kyrkt Freyju á heimili hennar í Malling. Ódæðisverkið átti sér stað í svefnherberginu. Hann sagðist hafa verið einn að verki og geti ekki skýrt af hverju hann drap Freyju. Því næst gekk hann um húsið í eina klukkkustund og dró síðan lík Freyju inn á baðherbergi því hann hafði áhyggjur af að sonur þeirra, 10 ára, myndi koma heim.

Eftir nokkurn tíma sótti hann sög upp á loft en vildi ekki lýsa nánar hvernig hann bar sig að en hann sagaði útlimi hennar og höfuð af.

Hann bar líkhlutana upp á loft og setti í ruslapoka og faldi undir spónarplötum. Því næst fór hann og reyndi að þrífa baðherbergið. Hann yfirgaf húsið einu sinni eða tvisvar áður en börnin komu heim. Í annað skiptið fór hann í göngutúr en í hitt skiptið að versla.

Þegar sonur hans kom heim um klukkan 15 fóru þeir feðgar að sækja yngri systur hans í skóla og síðan fóru þau í búð að kaupa í matinn.

Hann vissi að Freyja átti að mæta í vinnu á laugardeginum og ákvað eftir mikla umhugsun að senda sms úr síma hennar og tilkynna veikindi hennar. Bæði sendi hann sms til vinnufélaga og á vinnustaðinn.

Þær hugsanir bærðust í huga hans um að þeim mun lengri tími sem liði áður en uppgötvaðist að Freyja væri dáin, þeim mun lengri tíma hefði hann til að vera með börnum sínum. Á laugardeginum og sunnudeginum hélt hann áfram að senda skilaboð úr síma Freyju til að viðhalda þeirri blekkingu að hún væri lifandi. Á mánudeginum fór hann með börnin í skóla og sótti síðan undir kvöld eftir að skólinn hafði haft samband. Börnin spurðu hvar Freyja væri en hann sagðist ekki vita það. Þegar börnin voru sofnuð fór hann út og gróf afsöguðu líkamshlutana niður í garðinum en skrokkur lá enn uppi á loftinu.

Á þriðjudagsmorgninum hringdi hann í lögregluna og tilkynnti hvarf Freyju og vissi þá að nú væri stutt í að upp um hann kæmist. Grunur myndi falla á hann vegna fortíðar hans.

Sleit sambandinu

Freyja sleit sambandi þeirra sumarið 2020 og hann flutti úr húsinu í Malling þann 1. september 2020. Samkomulag þeirra var gott og gátu í sameiningu annast börnin og héldu jól saman. Hún skýrði honum síðan frá því að hún ætti vin, mann sem hún hefði kynnst þegar hún var við nám. Flemming grunaði að hún hefði haldið framhjá honum með þessum manni en því neitaði hún. Hann reiddist síðan þegar Freyja fjarlægði nafn hans af póstkassanum og sagði að þau myndu ekki umgangast í framtíðinni.

Þegar saksóknari spurði Flemming af hverju hann drap Freyju sagði hann að margir samverkandi þættir hafi átt hlut að máli. Hann sagðist hafa verið ósáttur við að þegar kom að pabbahelgi hefði Freyja ætlað að hitta vin sinn, hún hafi ekki sagt honum það en hann hafi grunað það. Hún hafi bara sagst vera upptekin.

Hann sagðist einnig hafa verið ósáttur við framkomu Freyju við börnin og sagði að 2018 eða 2019 hafi hún löðrungað son þeirra.

Hann sagðist hafa farið heim til Freyju þann 29. janúar 2020 til að ræða við hana um stöðu mála, hann hafi verið ósáttur við að hann ætti að vera með börnin á meðan hún færi að hitta mann.

Þegar saksóknari spurði hann af hverju hann drap Freyju sagði Flemming að hann telji að andlegu ástandi hans sé um að kenna en bætti við að hann væri ekki sálfræðimenntaður og gæti ekki tjáð sig um það faglega. Hvað nákvæmlega varð til þess að hann drap Freyju sagðist hann ekki vita, ef hann vissi það hefði hann örugglega ekki orðið Freyju að bana.

Þegar sasóknari spurði hann hvort hann hefði talið að hann kæmist upp með morðið sagði Flemming að í fyrstu hafi hann kannski talið það en morðið frá 1995 hafi sótt á hann og hann séð fyrir sér að þetta mál færi eins.

Neitaði sök í upphafi

Saksóknari sagði að í fyrstu tveimur yfirheyrslunum hafi Flemming neitað sök og það hafi ekki verið fyrr en í þriðju yfirheyrslunni næstu nótt sem hann játaði og þá ekki fyrr en eftir að lögreglan kynnti honum að hún hefði fundið líkhluta í garðinum. Þá sagði Flemming að hann hefði greinilega ekki grafið þá nægilega djúpt og játaði að hafa orðið henni að bana.

Því næst spurði saksóknari hann hvað hann hefði lært af þeim dómi sem hann fékk 1995 fyrir morðið á Kristina Hansen. Hann sagðist telja að hann hefði ekki fengið nægilega sálfræðiaðstoð síðustu 25 árin en þegar upp væri staðið hefði hann líklega ekki lært neitt af því máli.

Aðspurður sagði Flemming að Freyja hafi þekkt til fortíðar hans áður en þau fóru að búa saman.

Verjandinn hafði engar spurningar fyrir Flemming.

Fór yfir málsgögn

Því næst fór saksóknari yfir ýmis málsgögn, þar á meðal skýrslu lögreglunnar um tilkynningu Flemming um hvar Freyju þar sem hann sagði að hann vissi hvar hún væri, hún hefði ekki sótt börnin þeirra eins og hún ætti að gera.

Einnig var skýrt frá fyrstu samtölum lögreglunnar við Flemming og frásögn hans.

Saksóknarinn sagði að lögreglan hafi fljótlega talið að Flemming gæti verið viðriðinn hvarf Freyju og að það hafi verið fortíð hans sem gerði það að verkum.

Í skýrslum kom einnig fram að snjór hafi legið yfir garðinum við húsið í Malling og lögreglumenn og leitarhundar hafi fundið þrjá staði þar sem líkhlutar höfðu verið grafnir. Um höfuð var að ræða, tvo handleggi og tvo fótleggi.

Krufning leiddi í ljós að áverkarnir á líkinu voru veittir eftir að Freyja lést.

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Eiginkona Assads sögð ætla að sækja um skilnað

Eiginkona Assads sögð ætla að sækja um skilnað
Fréttir
Í gær

Siggi lýsir fyrstu jólunum án sonarins sem lést á árinu – „Maður er foreldri áfram. Maður verður að sýna andlitið“

Siggi lýsir fyrstu jólunum án sonarins sem lést á árinu – „Maður er foreldri áfram. Maður verður að sýna andlitið“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vatnsstríð á Reykhólum – Norðursalt var óstarfhæft eftir að Þörungaverksmiðjan skrúfaði fyrir rörið

Vatnsstríð á Reykhólum – Norðursalt var óstarfhæft eftir að Þörungaverksmiðjan skrúfaði fyrir rörið
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir