Nú standa yfir réttarhöld í Árósum yfir Flemming Mogensen sem er ákærður fyrir að hafa myrt Freyju Egilsdóttur á heimili hennar í Malling á Jótlandi þann 29. janúar síðastliðinn. Hann er ákærður fyrir að hafa kyrkt hana, að hafa síðan hlutað lík hennar í sundur og grafið líkhluta í garðinum.
Blaðamaður DV er á svæðinu og hér má lesa fyrri hluta af umfjöllun blaðsins úr réttarsal.
Flemming Mogensen hefur áður gerst sekur um morð en hann var dæmdur í í 10 ára fangelsi fyrir að hafa myrt Kristina Hansen, barnsmóður sína. Saksóknari fór ítarlega yfir dóm Vestri-Landsréttar yfir Flemming frá árinu 1996.
Því næst vék hann að niðurstöðum geðrannsóknar sem var gerð á Flemming í maí á þessu ári. Samkvæmt niðurstöðunum telja geðlæknar að lítil hætta sé á að hann fremji álíka voðaverk gagnvart ókunnugum og þeim sem hann þekkir lítið. Þetta á við um hið daglega líf. Hvað varðar líkur á að hann fremji ofbeldisverk og morð gagnvart fólki sem hann telur sig tengjast sterkum böndum telja læknarnir mikla hættu á að hann geri það. Hann á erfitt með að stýra skapi sínu, er mjög sjálfselskur og skortir þekkingu á eigin göllum og skapi og það gerir hann mjög hættulegan að mati geðlæknanna. Hann hafi gerst sekur um króníska hegðun með því að drepa Freyju og hafi dreymt um að myrða hana áður en hann lét verða af því.
Það að Freyja hafi yfirgefið hann hafi kveikt í honum því hann hafi ekki getað sætt sig við að hún myndi yfirgefa hann. Hann hafi treyst mikið á hana og treyst á viðurkenningu hennar. Hann hafi látið sig dreyma um að þau myndu ná saman á nýjan leik og hafi njósnað um Freyju eftir skilnað þeirra. Honum hafi fundist hann blekktur með því að hún vildi fara ein í frí, ekki taka saman við hann á nýjan leik og að hún hafi tengst öðrum karlmönnum böndum og stundað kynlíf með þeim. Hann byrjaði í sálfræðimeðferð eftir að hann og Freyja skildu að skiptum en hafði ekki áður sótt sér sálfræðihjálpar.
Er það mat læknanna að Flemming geti reynst mjög hættulegur fólki, sem hann telur sig tengdan nánum böndum, í framtíðinni. Hann geti beitt allt frá hótunum til morðs og miklar líkur séu á því að hann myrði á nýjan leik.
Niðurstaða geðlækna er að Flemming sé ekki geðveikur og hafi ekki verið í geðrofi þegar hann myrti Freyju. Hann hafi verið ættleiddur í æsku, en hann fæddist í Finnlandi en foreldrar hans voru sænsk, en hafi búið á „köldu“ heimili þar sem hafi skort á ástúð. Hann sé meðalgreindur og hafi lokið námi.
Einnig segir að eftir að hann og Freyja misstu ófætt barn, þegar hún gekk með tvíbura, hafi hann breyst. Orðið viðkvæmari og hafi glímt við sjálfsvígshugsanir. Hann er talinn sakhæfur og að samfélaginu geti stafað hætta af honum ef hann gengur laus. Mæla geðlæknar því með að hann verði vistaður á geðdeild í fangelsi ótímabundið.
Verjandinn spurði Flemming út í niðurstöðu geðrannsóknarinnar og hvort hann gæti sagt eitthvað um hana. Hann sagðist sammála henni um að hann ætti erfitt með að bindast öðru fólki böndum og geri sér oft mjög óraunhæfar hugmyndir. „Ég lifi eiginlega í öðrum heimi en annað fólk,“ sagði hann.
Hann sagðist hafa upplifað það í fyrsta sinn á þessu ári að vera hræddur við sjálfan sig, skíthræddur, og að hann telji sig hafa þörf fyrir aðstoð geðlækna og sálfræðinga í mörg ár. Hann sagðist ekki telja að það skipti neinu máli hvort hann verði dæmdur í 10 eða 16 ára fangelsi, honum muni ekki batna við að dvelja í fangelsi. Hann þarfnist sérfræðiaðstoðar.
Krafa um miskabætur
Um klukkan 10 kom lögmaður barna Freyju og Flemming í dómsalinn en hann hefur sett fram bótakröfu fyrir hönd barnanna. Hann er einnig lögmaður Alex Mogensen, sem Flemming á með Kristine sem hann myrti 1995.
Fyrir hönd Alex gerir hann kröfu um 120.000 danskar krónur í bætur, auk vaxta.
Fyrir hönd barna Freyju og Flemming gerir hann kröfu um 221.000 krónur í miskabætur, auk vaxta. Að auki gerir hann kröfu um bætur vegna missis framfæranda og menntunarkostnaðar barnanna þegar þau eldast.
Útfararkostnaður upp á 117.000 danskar krónur á Íslandi og 76.000 krónur í Danmörku en aska hennar var grafin í báðum löndum. Dómarinn ákvað að skjóta þessum hluta málsins til sérstakrar úrskurðarnefndar þar sem upphæðin sé ansi há.
Eftir fimmtán mínútna hlé hófust réttarhöldin á nýjan leik. Salurinn er fullur af áheyrendum og auk þeirra eru blaðamenn frá stærstu dönsku fjölmiðlunum í salnum og fylgjast með enda málið um margt óvenjulegt og auðvitað mjög hrottalegt. Alex, sonur Flemming, er viðstaddur réttarhöldin.
Saksóknari ávarpaði fyrst dóminn, í honum sitja dómari og tveir meðdómendur (leikmenn), og sagði það mat ákæruvaldsins að sakfella eigi Flemming fyrir morð og að hafa hlutað lík Freyju í sundur. Ekkert annað sé fært í stöðunni vegna alvarleika málsins. Hann sagði að hans mati komi ekkert annað til greina en að dæma Flemming í ævilangt fangelsi vegna þess að hann hafi áður hlotið dóm fyrir morð. Hann sagði að ekkert hefði komið fram í málinu sem eigi að hafa mildandi áhrif á niðurstöðuna. Flemming hafi ekki játað neitt fyrr en lögreglan fann líkhlutana. Að hann hafi lagt mikið á sig til að leyna því sem hann hafði gert og hafi reynt að láta hverdaginn vera eðlilegan þegar hann var með börninn. Hafi snætt með þeim á sama tíma og lík Freyju hafi verið falið uppi á lofti. Hann hafi sent skilaboð úr síma hennar til nýja unnusta hennar og vinnustaðar hennar og síðan hafi hann grafið líkið niður í garðinum. Að því loknu hafi hann hringt í lögregluna og tilkynnt um hvarf Freyju. Hafi síðan neitað að hafa myrt hana þar til lögreglan hafi fundið hluta af líki Freyju í garðinum og hafi þá sagt: „Þá hef ég ekki grafið hana njógu djúpt niður.“
Hann sagði að það eigi að virða Flemming það til refsiauka að hann hafi áður myrt manneskju. Hann benti á samkvæmt hegningarlögunum sé kveðið á um að fyrri brot af sama tagi eigi að virða til refsiþyngingar og ekki séu nein tímamörk á hversu lengi það gildi, enginn fyrningarfrestur.
Saksóknarinn benti einnig á að Hæstiréttur hafi tekið afstöðu til þess hvernig á að refsa fólki þegar það fremur morð númer tvö. Þar var sakborningur dæmdur í 12 ára fangelsi fyrir morð á konu 1996 og í síðara skiptið fyrir morð á nýársdag 2016 vegna deilna um peninga. Var viðkomandi dæmdur í ævilangt fangelsi og sagði rétturinn í niðurstöðu sinni að eina rétta refsingin þegar sakborningur hefur áður myrt sé ævilangt fangelsi.
Hann sagði að út frá lagalegu sjónarmiði sé ævilangt fangelsi eina rétta niðurstaða þar sem það sé þyngsta refsingin samkvæmt lögum. Hann sagðist ekki áður hafa séð niðurstöðu geðrannsóknar á borð við þá sem var gerð á Flemming, þar sem svo skýrt væri tekið fram að viðkomandi sé hættulegur öðru fólki. Það að dæma Flemming til ótímbundinnar vistunar á réttargeðdeild sé ekki ásættanleg refsins. Flemming geti fengið sálfræðiaðstoð í fangelsi, það sé ekki bundið við réttargeðdeild.
Verjandi Flemming tók næst til máls og sagði að rétt væri að dæma Flemming til ótímabundinnar vistunar á réttargeðdeild. Hann sagði hafið yfir allan vafa að Flemming hafi framið glæp sem er flestum óskiljanlegur, hann hafi sjálfur viðurkennt það. Hann sagði að samkvæmt niðurstöðum rannsóknar fangelsismálayfirvalda þá fái þeir, sem eru dæmdir í ótímabundna vistun á réttargeðdeild, fyrst reynslulausn eftir 14 ár og 7 mánuði að meðaltali. Flemming muni því sitja lengi í fangelsi ef hann verður dæmdur til ótímabundinnar vistunar.
Að lokum spurði dómarinn Flemming hvort hann vildi segja eitthvað að lokum. Hann sagði að það sem hann vildi segja sé að honum finnist hann ekki hafa verið tekinn alvarlega þegar hann hefur leitað eftir sálfræðiaðstoð. Honum hafi til dæmis verið vísað frá sjúkrahúsi í Árósum þegar hann leitaði þangað vegna sjálfsvígshugsana. Hann gagnrýndi einnig að hann hafi nær enga sálfræðiaðstoð fengið á þeim 10 mánuðum sem hann hefur setið í gæsluvarðhaldi. Hann sagðist telja sig hafa glímt við þunglyndi síðan hann framdi fyrra morðið og það hafi haft mikil áhrif á samband hans við Alex. „Það er eitthvað að mér og sérstaklega þá núna þegar ég í annað sinn í lífinu drap ástina mína,“ sagði Flemming um andlegt ástand sitt. Hann mótmælti einnig niðurstöðu geðrannsóknarinnar um að hann hefði dreymt um að drepa Freyju áður en hann drap hana. Hann sagðist ekki vita hvernig geðlæknar hafi komist að þeirri niðurstöðu.
Að þessu loknu var gert hlé og dómarar drógu sig í hlé til að ákveða refsingu Flemming en eins og dómsformaðurinn sagði leikur enginn vafi á sekt hans.