Margrét Esther Erludóttir hefur lengi barist fyrir því að fósturheimili sem hún var vistuð á í æsku verði tekin til rannsóknar. Vistheimilanefnd sem rannsakaði meðal annars starfsemi Breiðavíkurheimilisins og Kópavogshælis takmarkaði vinnu sína við ríkisrekin vistheimili og kaus að rannsaka til dæmis ekki hið alræmda barnaheimili á Hjalteyri sem hefur verið til umfjöllunar í fjömiðlum undanfarið.
Í ljósi umræðunnar um heimilið á Hjalteyri vill Margrét minna aftur á sögu sína sem hefur meðal annars verið til umfjöllunar í fréttaskýringaþættinum Kveiki. Eva Hauksdóttir skráði einnig frásögn Margrétar fyrir Kvennablaðið fyrir nokkrum árum.
Margrét bendir á að það sé ekki betra að vera píndur og rændur barnæskunni á einkaheimili en á ríkisreknu vistheimili. Hávær krafa er nú uppi í samfélaginu um að efnt verði til víðtækari rannsóknar á aðstæðum barna sem barnaverndarnefndir hafa látið vista á fósturheimilum í gegnum tíðina.
Í frásögn sinni lýsir Margrét meðal annars nauðgunum og líkamlegum misþyrmingum sem hún varð fyrir á tilteknu heimili:
„Ofbeldið og kúgunin á þessu heimili er efni í heila bók. Það voru engar venjulegar refsingar sem viðgengust þarna; við vorum svelt og okkur var misþyrmt, við vorum t.d. lamin með hrossapísk. Ég á eingöngu vondar minningar frá þessum stað. Sem dæmi um meðferðina var viskustykki vafið um hálsinn á mér og ég látin hanga í því. Einu sinni var ég lamin með naglaspýtu í bakið og bóndinn nauðgaði mér margsinnis. Fólk trúir þessu ekki. Ég sagði frá þessu heimili á Facebook og fékk það framan í mig að ég væri bara að ljúga þessu upp. En það vill svo til að það eru vitni að þessu og ég var ekkert sú eina sem var misþyrnt. Einn drengurinn var einu sinni berháttaður og látinn sitja í vatnsbala úti í kuldanum fram á nótt. Þessi drengur fyrirfór sér síðar.“
Margrét greinir frá að börnin sem dvöldust á heimilinu hafi rætt um hvernig þau gætu flúið en þau vissu að slíkt gæti kostað hræðilegar refsingar. Hún lýsir því einnig hvernig nágranni bjargaði henni undan nauðgun húsbóndans á heimilinu:
„Við börnin, sem vorum vistuð þarna, töluðum stundum saman um það hvernig við gætum flúið en símtölin okkar voru hleruð og við vissum að okkur yrði refsað hraðlega ef við reyndum að strjúka. Börn sem er farið svona illa með brotna niður. Manni datt ekkert í hug að það væri hægt að fá hjálp.
Nágrannarnir vissu samt að það var eitthvað mikið að á þessu heimili. Þegar húsbóndinn nauðgaði mér í annað eða þriðja skiptið kom maðurinn á næsta bæ að og stoppaði hann. Þau voru öll á fylliríi og þessi nágranni kom að honum þar sem hann var að nauðga mér. Hann hreinlega dró hann frá mér.“
Upphaf hrakninga Margrétar í æsku má rekja til þess að móðir hennar lést er hún var fjögurra ára en faðir hennar var alkóhólisti og óhæfur til ala hana og systkini hennar upp, auk þess sem hann skorti allan áhuga til þess. Áhrifamikil örlagasaga Margrétar er rakin skilmerkilega í frásögn Evu Hauksdóttur og má lesa hér.