Morgunblaðið hefur þetta eftir Þórólfi Guðnasyni, sóttvarnalækni. Pfizer hefur fengið slíkt leyfi í Bandaríkjunum, Kanada og Ísrael. Fyrirtækið hefur einnig lagt inn umsókn hjá Lyfjastofnun Evrópu sem er nú að fara yfir hana.
En þrátt fyrir að engin ákvörðun hafi verið tekin er búið að panta bóluefni fyrir 5 til 11 ára börn og er sending væntanleg til landsins í lok desember.
Yfirstandandi bylgja er að mestu drifin áfram af smitum hjá börnum 11 ára og yngri en sú staða var ekki uppi í fyrri bylgjum.
Samkvæmt spá COVID-19 Scenario Modeling Hub, sem er samstarfsverkefni bandarískra háskóla og heilbrigðisstofnana um að spá fyrir um þróun faraldursins, getur bólusetning 5 til 11 ára barna í Bandaríkjunum komið í veg fyrir 430.000 smit þar í landi miðað við að Deltaafbrigðið verði áfram ríkjandi. Ef enn meira smitandi afbrigði kemur fram á sjónarsviðið gæti þessi bólusetning komið í veg fyrir 860.000 smit.
Félag bandarískra barnalækna mælir með bólusetningu barna fimm ára og eldri og Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna leggur áherslu á að börn, fimm ára og eldri, séu bólusett því þau geti veikst alvarlega af COVID-19 eins og aðrir.