Steinar Sörensen, sem Barnaverndarnefnd Akureyrar lét vista á hinu alræmda barnaheimili hjónanna Einars og Beverly Gíslason á Hjalteyri, er Steinar var aðeins 6 mánaða, sendi Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, tölvupóst í gær og vakti athygli hans á umfjöllun Stöðvar 2 um barnaheimilið. Steinar fékk svar um hæl frá forsetanum síðdegis í dag og verða það að teljast afar skjót viðbrögð hjá forsetanum.
Tvö af eldri systkinum Steinars urðu ítrekað fyrir grófu kynferðislegu ofbeldi á heimilinu. Líkamlegt ofbeldi og innilokun í gluggalausu herbergi voru á meðal þess sem börnin á heimilinu máttu þola. Steinar, sem var kornabarn og var vistaður á heimilinu í átta mánuði, var látinn gráta langtímum saman án afskipta og huggunar.
Steinar hefur lengi barist fyrir því að hið opinbera fari ofan í saumana á starfseminni á heimilinu alræmda á Hjalteyri, en hefur hingað til talað fyrir daufum eyrum. Hann vonast til þess að umfjöllunin á sunnudagskvöldið verði þúfan sem veltir því hlassi.
Steinar ræddi þetta mál í viðtali við DV árið 2017. Þar segir meðal annars:
Þó að Steinar Immanuel Sörensson hafi í heildina átt góða barnæsku voru fyrstu tvö til þrjú æviár hans skelfileg. Hann man ekkert frá þessum tíma en þó má leiða líkum að því að áföll og vanræksla á þessum viðkvæma tíma hafi fylgt honum alla tíð síðan, en Steinar hefur átt erfiða ævi og er í dag öryrki vegna þunglyndis.
Steinar var aðeins á öðru ári er hann lá hágrátandi einn í rúmi á vistheimili á Hjalteyri. Eldri systkinum hans sem voru einnig vistuð á heimilinu var bannað að hugga hann og hlúa að honum og voru læst niður í kjallara í refsingarskyni ef þau óhlýðnuðust þeim skipunum.
„Mér er sagt að ég hafi verið látinn liggja þarna afskiptalaus þar til ég var búinn að grenja mig í svefn,“ segir Steinar en forsaga þessa harmleiks er sú að hann ásamt fimm systkinum sínum var tekinn af foreldrum þeirra fyrir tilstuðlan barnaverndarnefndar. Fjögur eldri systkini Steinars eru hálfsystkini hans, þrjú eru ekki samfeðra, en síðan á hann eina yngri alsystur og einn hálfbróður sem er samfeðra.
Steinar sagði ennfremur í þessu viðtali:
„Ég hef sett mig í samband við velferðaráðuneytið, sýslumanninn á Siglufirði, vistheimilanefndina og talsmann vistheimila barna, hana Guðrúnu Ögmundsdóttur, og alls staðar hef ég eingöngu fengið þau svör að þetta heimili hafi ekki tilheyrt ríkinu heldur verið einkarekið. Furðulegt að það sé hægt að kasta svona frá sér með þessum hætti og afgreiða málið án þess að skoða það nánar, það var Barnaverndarnefnd Akureyrar sem sendi okkur öll þangað, og hún á að starfa skv. lögum settum af ríkinu.“
Steinar hefur blendnar tilfinningar gagnvart svari forsetans. Þess ber þó að gæta að valdið í þessum efnum liggur ekki hjá forsetanum en hann getur vissulega haft áhrif á aðra valdamenn. Svar Guðna er eftirfarandi:
„Kæri Steinar.
Ég þakka þér fyrir að hafa samband við mig og vekja athygli á nýlegri umfjöllun um barnaheimilið á Hjalteyri. Ég hafði kynnt mér hana og þótti að sjálfsögðu afar sárt að lesa þær skelfilegu lýsingar sem þar er að finna. Einnig rifjaði ég upp frásögn þína í DV árið 2012.
Síðustu ár hafa farið fram rannsóknir á aðbúnaði fólks á vistheimilum og frekari vinna af því tagi er undirbúin. Einnig er gert ráð fyrir að fram fari rannsókn á vöggustofum á vegum Reykjavíkurborgar. Í því ljósi má heita sjálfsagt að farið verði ofan í saumana á starfsemi heimila fyrir börn annars staðar á landinu.
Í nýársávarpi í hittifyrra minntist ég á að lengi var þroskahömluðum og fólki með geðrænar raskanir komið fyrir á ýmiskonar vistheimilum. Þar sagði ég m.a. „að harðneskja ríkti of oft, sums staðar jafnvel ofbeldi af verstu gerð. Fagnaðarefni er að fórnarlömb þeirrar rangsleitni hafa hlotið sanngirnisbætur þótt áfram megi huga að stöðu þeirra sem brotið var á.“
Ég vona að sanngirni og réttlæti fái að ráða á þessum vettvangi sem öðrum. Ég þakka þér fyrir að segja sögu þína og annarra. Með því hefurðu eflaust stuðlað að því að harðýðgi fái ekki að ráða þar sem síst skyldi, þar sem börn þurfa skjól, ástúð og umhyggju.
Með góðri kveðju,
Guðni Th. Jóhannesson“
Steinar svaraði forsetanum:
„Sjáum nú hvað setur
Kærar þakkir fyrir þetta, mig langar þó jafnframt að biðja forseta um að vekja athygli á málinu meðal ráðamanna, því hingað til hefur 15 ára barátta mín og stöðugar ábendingar til hinna ýmsu ráðherra, þingmanna, ráðuneyta og nefnda engu skilað, og þessu iðulega ýtt út af borðinu á þeirri forsendu að þetta hafi nú ekki verið ríkisrekið, mín tilfinning er sú að þarna sé enn verið að reyna að hylma yfir með fólki sem hafði ítök samfélaginu og hefur ekki mátt sverta, ég leita því til forseta um að hann beiti sér á einhvern hátt fyrir því að þetta heimili verði rannsakað, og ekki ýtt undir stól í þetta skiptið, og einnig leitast ég eftir að meðferðin sem við fengum og áhugaleysið og hundsunin sem mér hefur verið ítrekað sýnd með þetta mál verði sett í ferli og við jafnframt beðin afsökunar opinberlega á þeirri meðferð. Það þarf ekki meira en að setja sjálfan sig í þau spor að ef börnin manns fengju slíka meðferð hvernig vildi maður að það fengist afgreitt til að græða sárin lítillega.
Með vinsemd og virðingu
Steinar Immanúel Sörensson“
Steinar segir í stuttu spjalli við DV að hann sé ekki fyllilega sáttur við svar Guðna þó að vissulega sé hann ánægður með að fá skjót svör frá forsetanum. Steinar segir:
„Finnst hann í rauninni ekki skilja alvarleikann í þessu og hálfpartinn eins og hann sé að reyna að ýta þessu frá sér. Mér persónulega finnst hann eigi að sýna að hann taki svona lagað alvarlega og sem æðsta embætti þjóðarinnar ætti hann að gefa skýr svör og krefjast þess, eins og forsvarsmaður sanngirnisbóta og fyrrum yfirmaður barnaverndar Akureyrar, að þetta verði rannsakað.“