„Auðvitað vill enginn að Landspítalinn lamist og það er gjörsamlega ótrúlegt að staða hans sé sú sem hún er. Manni finnst eins og ekkert hafi verið gert til að laga stöðuna á spítalanum síðastliðna 18 mánuði.“
Svona hefst færsla sem veitinga- og athafnamaðurinn Sigmar Vilhjálmsson, sem oftast er kallaður Simmi Vill, skrifaði og birti á Facebook-síðu sinni í kvöld. „Ekki einu sinni bætt í þjónustuna þrátt fyrir að vitað væri að um 89% þjóðarinnar myndi fá bólusetningu. Því það er löngum vitað að bólusetningum fylgja oft veikindi og aukaverkanir sem þarf að sinna. Samt virðist ekkert hafa verið gert til að búa okkur undir það álag heldur. Hver er að stjórna ferðinni hérna?“
Sigmar segir Tómas Guðbjartsson, sem einnig er þekktur sem Lækna-Tómas, hafa átt fína innkomu um daginn og vísar þar í pistil sem Tómas skrifaði um stöðuna á Landspítalanum.
Sjá einnig: Skynsemi er fyrirsjáanleg segir Tómas og gagnrýnir Áslaugu og Þórdísi
„Aðkoma stjórnvalda í þessum faraldri er til skammar. Ekkert minna en það,“ segir Sigmar um pistilinn. „En að því sögðu, þá finnst mér afskaplega takmarkaðar upplýsingar berast frá Landspítalanum og sóttvarnalækni með hlutfall alvarlegra einkenna þeirra sem smitast.“
Sigmar kemur þá með nokkrar spurningar fyrir Tómas. „Hvað er hátt hlutfall í þessari bylgju af gulmerktum og rauðmerktum einstaklingum?“ spyr hann til dæmis. Þá spyr hann einnig hvers vegna einangrunin er ekki styttri og hvað þurfi að gerast á Landspitalanum svo hægt sé að ráða við meira en 3 á gjörgæslu og 24 einstaklinga í sjúkrarúmi. „Er til upplegg á því hvernig það er leyst?“
Sigmar ræðir þá um mögulegar lausnir á aðstöðuvanda sem læknirinn og framkvæmdastjórinn Teitur Guðmundsson kom með á dögunum. „Sjúkratryggingar klára ekki samning. Á enginn að þurfa svara fyrir af hverju? Ég minni á að við erum að bólusetja fólk í bílastæðakjallara. Mér er það til efs að ekki sé hægt að bjóða uppá boðlega aðstöðu til að taka kúfinn af þessu vandamáli. Snýst þetta um peninga? Hafa menn reiknað kostnað Ríkisins af þessu ástandi sem er í dag?“
Sigmar hjólar þá í Þórólf Guðnason sóttvarnalækni fyrir að koma „með nýjan ótta inn á dansgólfið“ og vísar í frétt mbl.is þar sem Þórólfur talar um það sem gæti gerst ef fólk fer ekki varlega. Þórólfur nefnir til dæmis að mikilvæg starfsemi geti lamast vegna veirunnar. „Ef að hlutfall alvarlegra veikra er jafnlítið og það virðist vera og 5 daga einangrun er næg fyrir „Covid-hafa“ til að smita ekki aðra, þá er svona hræðslu áróður alls ekki boðlegur lengur,“ segir Sigmar um orð Þórólfs.
„En það er nú líka þannig að einhverjir í samfélaginu stórgræða á svona stöðu í samfélaginu. Mögulega vantar meiri þrýsting á stjórnmálin að leysa málið. Hlutabréfamarkaðurinn hefur stórgrætt á þessu ástandi, fyrirtæki á þeim markaði eru öll í nauðsynjaflokknum. Fremst í röðinni í fjármálum heimilanna. Nema Icelandair, þeir fengu Ríkisábyrgð og öll úrræðin sem hafa verið lögð fram hafa passað því annars góða félagi að öllu leiti.“
Að lokum segir Sigmar að fólk muni á endanum gefast upp og rísa á fætur. „Þórólfur þarf að fara tala íslensku og hætta meðvirkni sinni með stjórnmálum. Hann er ekki í stjórnmálum, hann er sóttvarnarlæknir og hann má ef ekki bara á að gagnrýna líka aðgerðarleysi stjórnmálanna ef það er til staðar og hefur staðið í vegi fyrir framvindu, baráttu eða aðstöðu í þessu stríði okkar við Covid……annars er ég bara góður, varð að koma þessu frá mér.“