Matvælastofnun (MAST) hefur nú til rannsóknar myndband frá dýraverndarsamtökunum AWF/TSB (Animal Welfare Foundation/Tierschutzbund Zürich) sem sýnir myndbrot frá blóðtöku úr fylfullum hryssum. En verklagið sem sést á myndbandinu virðist ekki vera í samræmi við þau skilyrði sem Matvælastofnun hefur sett fyrir slíkri blóðtöku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnun en þar segir að stofnunin líti málið alvarlegum augum.
Myndband AWF var birt á föstudaginn á YouTube og þar má sjá hvernig aðbúnaður er hjá sumum hrossaræktendum hér á landi sem leggja stund á blóðtöku úr fylfullum hryssum – svokallaðar blóðmerar, en talið er að miklir peningar séu í spilinu þar sem blóðið er nýtt til lyfjaframleiðslu.
Viðkvæmir eru varaðir við efni myndbandsins hér að neðan en þar má sjá framkvæmd blóðtökunnar og hvernig hryssurnar eru lamdar með hinum ýmsu bareflum.
Í myndbandi AWF er meðal annars rætt við Árna Stefán Árnason, lögmann, og hann segir þar að Íslendingar viti almennt ekki mikið um blóðmerahaldið hér á landi. Þar er einnig rætt við Hreggvið Hermansson, bónda sem er titlaður uppljóstrari í myndbandinu.
Meðlimir AWF tóku úr launsátri myndbönd af framkvæmd blóðtöku en þar mátti sjá hryssurnar barðar með prikum og spýtum sem og þegar hundum var sigað á þær og folöld þeirra.
Meðlimir dýraverndunarsamtakanna þurfti einnig að óska eftir aðstoð lögreglu eftir að einn ræktandi elti þau á bifreið og að þeirra mati reyndi að neyða þau ofan í skurð. Sá bóndi er nafngreindur í myndbandinu sem Baldur Eiðsson, hrossaræktandi í Landeyjum.
Eins má sjá á upptökum hvernig ræktendur reyndu að vísa meðlimum samtakanna á brott og meina þeim að fylgjast með framkvæmdinni. Bílar veittu þeim eftirför og var hrópað að þeim að hverfa aftur til síns heima.
Á myndbandinu má einnig sjá myndbrot af haltri hryssu en meðlimir AWF segjast hafa fylgst með hryssunni dögum saman en hún hafi enga hjálp fengið.
Myndskeiðin sem sýna blóðtökuna varpa ekki fallegri mynd á þá framkvæmd en þar má sjá gífurlega hræddar hryssur mæta höggum og öskrum á meðan þær eru bundnar fastar svo hægt sé að koma í þær þykkum nálum sem dæla úr þeim blóði.
AWF kalla eftir því að Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins veiti málinu gaum og banni hormónið PMSG sem er unnið úr blóði blóðmera, en Evrópuþingið hefur einnig farið fram á að slíku banni verði komið á.
Blóðið sem tekið er úr fylfullum hryssum á Íslandi er nýtt í lyfjaframleiðslu. Hryssurnar eru kallaðar blóðmerar og er folöldum þeirra ýmist slátrað til kjötframleiðslu, nýtt sem blóðmerar eða til reiðhestaræktunar. Verðmæti hryssublóðs er talið umtalsvert en fyrr á árinu var greint frá því að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti hafi ekki upplýsingar um veltu einstaklinga og fyrirtækja sem stunda blóðmerahald hér á landi. Eins og fram kemur hér að ofan hefur starfsemin verið í miklum vexti hér á landi sem rímar vel þann hagnað sem talinn er fylgja slíkri ræktun.
Þingmenn úr minnihlutanum á Alþingi, Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson, Olga Margrét Cilia og Sara Elísa Þórðardóttir, lögðu fram frumvarp snemma á árinu þar sem lagt var til að blóðmerahald yrði bannað í hagnaðarskyni. Frumvarpið gekk til atvinnuveganefndar í mars á þessu ári en hefur ekki verið afgreitt úr nefndinni. „
Í tilkynningu Matvælastofnunar kemur fram að stofnunin heimsækir um 20 prósent starfsstöðva árlega á meðan á blóðtöku stendur og önnur 20 prósent fá heimsóknir eftirlitsmanna yfir vetrartímann. Ef alvarleg frávik koma í ljós við eftirlitið er starfsemin tafarlaust stöðvuð og hefur alls komið til stöðvunar á starfsemi á fimm starfsstöðvum frá árinu 2014. Matvælastofnun telur þó að ræktun blóðmera og blóðtakan sé í samræmi við lög um velferð dýra – sé skilyrðum fylgt við blóðtökuna.
„Reglulega er fylgst með blóðbúskap hryssnanna og sýna þær rannsóknir að blóðtakan, eins og hún er framkvæmd hér á landi, er innan ásættanlegra marka fyrir heilsu þeirra og velferð og hryssurnar eiga auðvelt með að vega upp blóðtapið. Frá því farið var að skrá afföll tengd blóðtökunni, vegna slysa eða veikinda, hafa þau verið < 1/1000 árlega sem er með því allra lægsta sem þekkist í búfjárhaldi almennt og ending hryssnanna er góð. Sömuleiðis er hverfandi lítið um efnaskiptasjúkdóma í tengslum við blóðtökuna (framleiðslusjúkdóma) sem og aðra sjúkdóma. Þá er staða smitsjúkdóma í íslenska hrossastofninum einstök á heimsvísu.
Það er mat Matvælastofnunar að blóðtaka úr fylfullum hryssum, sem framkvæmd er samkvæmt skilyrðum stofnunarinnar, sé í samræmi við lög nr 55/2013 um velferð dýra.“