fbpx
Laugardagur 25.janúar 2025
Fréttir

Hryllingurinn á Hjalteyri: Steinar horfði tvisvar á þáttinn og grét allan tímann – „Loksins eins og einhver trúi okkur“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 22. nóvember 2021 11:20

Steinar Immanuel Sörensen

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég hef tvisvar horft á þáttinn og hlustaði á umfjöllunina í Bítinu á Bylgjunni einnig og ég grét allan tímann, ekki bara af því að það var sárt að horfa á þetta, líka af því að mér finnst loksins eins og einhver trúi okkur eftir að Berghildur fór af stað með þetta,“ segir Steinar Immanuel Sörenssen, en hann var aðeins sex mánaða er Barnaverndarnefnd Akureyrar lét vista hann á barnaheimili hjónanna Einars og Beverly Gíslason í Richardhúsi á Hjalteyri. Steinar dvaldist þarna um átta mánaða skeið og hefur aldrei beðið þess bætur.

Fréttaskýring Berghildar Erlu Bernharðsdóttur á Stöð 2 og Vísir.is um barnaheimilið hefur vakið gífurlega athygli. Tvö af eldri systkinum Steinars urðu ítrekað fyrir grófu kynferðislegu ofbeldi á heimilinu. Líkamlegt ofbeldi og innilokun í gluggalausu herbergi voru á meðal þess sem börnin á heimilinu máttu þola.

Margrét, systir Steinars, var níu ára er hún var vistuð á heimilinu og var beitt miklu ofbeldi. Hún lést langt fyrir aldur fram. Jón Hlífar, bróðir Steinars, lýsir með átakanlegum hætti því ofbeldi sem hann varð fyrir í fréttaskýringu Berghildar.

Steinar hefur lengi barist fyrir því að hið opinbera fari ofan í saumana á starfseminni á heimilinu alræmda á Hjalteyri, en hefur hingað til talað fyrir daufum eyrum. Hann vonast til þess að umfjöllunin á sunnudagskvöldið verði þúfan sem veltir því hlassi.

Steinar ræddi þetta mál í viðtali við DV árið 2017. Þar segir meðal annars:

Þó að Steinar Immanuel Sörensson hafi í heildina átt góða barnæsku voru fyrstu tvö til þrjú æviár hans skelfileg. Hann man ekkert frá þessum tíma en þó má leiða líkum að því að áföll og vanræksla á þessum viðkvæma tíma hafi fylgt honum alla tíð síðan, en Steinar hefur átt erfiða ævi og er í dag öryrki vegna þunglyndis.

Steinar var aðeins á öðru ári er hann lá hágrátandi einn í rúmi á vistheimili á Hjalteyri. Eldri systkinum hans sem voru einnig vistuð á heimilinu var bannað að hugga hann og hlúa að honum og voru læst niður í kjallara í refsingarskyni ef þau óhlýðnuðust þeim skipunum.

„Mér er sagt að ég hafi verið látinn liggja þarna afskiptalaus þar til ég var búinn að grenja mig í svefn,“ segir Steinar en forsaga þessa harmleiks er sú að hann ásamt fimm systkinum sínum var tekinn af foreldrum þeirra fyrir tilstuðlan barnaverndarnefndar. Fjögur eldri systkini Steinars eru hálfsystkini hans, þrjú eru ekki samfeðra, en síðan á hann eina yngri alsystur og einn hálfbróður sem er samfeðra.

Steinar sagði ennfremur í þessu viðtali:

„Ég hef sett mig í samband við velferðaráðuneytið, sýslumanninn á Siglufirði, vistheimilanefndina og talsmann vistheimila barna, hana Guðrúnu Ögmundsdóttur, og alls staðar hef ég eingöngu fengið þau svör að þetta heimili hafi ekki tilheyrt ríkinu heldur verið einkarekið. Furðulegt að það sé hægt að kasta svona frá sér með þessum hætti og afgreiða málið án þess að skoða það nánar, það var Barnaverndarnefnd Akureyrar sem sendi okkur öll þangað, og hún á að starfa skv. lögum settum af ríkinu.“

Grét yfir þættinum, en ekki bara af sorg

DV ræddi stuttlega við Steinar í morgun um þáttinn á Stöð 2. Hann vonast til að einhverjir ráðamenn hafi horft á og eygir von um réttlæti til handa sér og systkinum sínum sem þjáðust á heimilinu:

„Hingað til höfum við bara verið hundsuð, af vistheimilanefnd, af ráðherrum, velferðanefnd, lögreglunni, þingmönnum, þeim sem sáu um afgreiðslu sanngirnisbóta (sýslumaðurinn á Siglufirði hann leit ekki einusinni á gögnin ) og hvar sem maður hefur reynt að koma þessu á framfæri. Ef ráðamenn hafa séð þessa umfjöllun og ákveða enn einusinni að hundsa þessar ábendingar þá eru þeir bara annað hvort sálarlausir eða gjörsneyddir öllum mannlegum tilfinningum,“  segir Steinar og bendir á að boltinn sé núna hjá ráðamönnum og skorar á þá sem völdin hafa að láta verkin tala:

„Boltinn er hjá ráðamönum, forseta og öðrum sem hafa völd til að láta til sínn taka og fara fram á rannsókn, hingað til hafa þeir hundsað það algjörlega. Ég trúi ekki öðru en að þetta fái formlega rannsókn og við sem þarna vorum fáum opinberlega afsökun og iðrun í verki. Ég ætla að trúa því að einhverjir þess til bærir stígi fram.“

Steinar er þó ekki allt of bjartsýnn á að þetta rætist:

„Er ég bjartsýnn? Nei, ekki miðað við undirtektirnar hingað til og meðvirknina með þessu fólki. Ég myndi vilja frá svör ráðamanna við því af hverju þeir hafa ekki hlustað hingað til. Ég ætla að leyfa mér að vona.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“
Fréttir
Í gær

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum