Baráttukonan og rithöfundurinn Hellen Linda Drake lést síðastliðinn föstudag, þann 19. nóvember, á Landspítalanum, eftir erfið veikindi.
Linda fæddist þann 29. júní árið 1960. Meðal ritverka þennar var hin áhrifamikla saga Launhelgi lyganna sem kom út árið 2000, undir höfundarnafninu Baugalín. Verkið markaði tímamót í frásögnum af kynferðisbrotum. Hún lýsir þar kynferðisbrotum stjúpföður síns frá því hún var barnung. Gerandinn var lögreglumaður og er Linda lagði fram kæru gegn honum á unglingsaldri var þeirri kæru fálega tekið af lögreglu.
Fyrir rúmu ári greindist Linda með krabbamein í beinmerg. Hún bjó þá á Englandi við nokkuð kröpp kjör. Var hinsta ósk hennar sú að geta flutt með eigur sínar til Íslands og varið síðustu ævidögunum hér. Sú hinsta ósk Lindu rættist.
Dætur Lindu, þær Kristana Ósk Birgisdóttir og Eyrún Ösp Birgisdóttir, birtu eftirfarandi tilkynningu á Facebook-síðu Lindu:
„Elskuleg móðir okkar lést i dag, eftir stutt en mjög alvarleg veikindi. Hennar seinustu óskir, að flytja heim og kveðja okkur systurnar rættust. Viljum við þakka öllum þeim sem lögðu henni lið við að láta þær rætast. Þetta skipti hana öllu máli.“
DV sendir öllum aðstandendum Hellenar Lindu Drake innilegar samúðarkveðjur og þakkar fyrir afar jákvæð kynni af þessari einstöku konu.