Í Kveik kvöldsins á RÚV var velt upp þeirri spurningu hvort og hvenær menn eigi að geta átt afturkvæmt í samfélagið eftir að þeir hafa gerst sekir um kynferðisbrot eða bara ámælisverða kynferðislega hegðun. Rætt var við Þóri Sæmundsson sem var ein af vonarstjörnum leikhússheimsins er honum var sagt upp störfum hjá Þjóðleikhúsinu árið 2017 fyrir að hafa sent ólögráða stúlkum kynferðislegar myndir á samskiptaforritinu Snapchat.
Á sínum tíma ákvað Þórir að stíga fram í viðtali við DV og gera hreint fyrir sínum dyrum. Í viðtali Kveiks við Þóri kemur fram að hann hefur hvergi fengið vinnu eftir að mál hans kom upp og var hann meira að segja rekinn úr starfi rútubílstjóra eftir að vakin var athygli vinnuveitenda hans á gömlum fréttum af athæfi hans. Hefur hann þrautnýtt allan atvinnuleysisbótarétt en var fyrir fáum árum ein af vonarstjörnum íslenskrar leiklistar.
Töluverð leynd hefur ríkti yfir efni þáttarins í aðdraganda sýningar hans og hefur RÚV farið aðrar leiðir en hingað til í kynningu á honum. Birtar var stutt auglýsingastikla þar sem Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri þáttarins, stendur fyrir utan Þjóðleikhúsið, reifar áhrif af #metoo byltingunni en bendir jafnframt á að enginn fari flekklaus í gegnum lífið og varpar fram þeirri spurningu hvenær fólk sem gerst hefur sekt um kynferðisbrot eða ósiðlegt framferði eigi að eiga afturkvæmt í samfélagið. Segir hún að rakin verði dæmisaga um þetta í þættinum.
Á vefsvæði Kveiks á vef RÚV í dag var ekki minnst einu orði á efni þáttarins en hins vegar var greint frá því í kvöldfréttatíma RÚV.
Í viðtali Kveiks við Þóri kemur fram að hann hafi ekki átt sér viðreisnar von eftir að hann viðurkenndi typpamyndasendingarnar til ólögráða stúlkna. Hann stóð sjálfur í þeirri trú að stúlkurnar sem hann var að senda þessar myndir hafi verið lögráða. Hann viðurkennir engu að síður að þetta hafi verið dómgreindarbrestur af hans hálfu.
Einnig kemur fram að Þórir hafi sótt um á bilinu 200-300 störf síðan hann var rekinn frá Þjóðleikhúsinu en án árangurs. Hann hafi misst þrjú störf eða verkefni eftir að hann fékk þau eftir að vinnuveitendur hans gúggluðu fréttir af athæfi hans.
Þórir segir að þetta sé lítið samfélag og hann spyr hvort það væri ekki fyrir löngu komið upp á yfirborðið ef hann væri í raun perri sem legði í vana sinn að senda skólabörnum óviðurkvæmilegar myndir.
Í upphafi þáttarins fer Þóra yfir það hver staða Þóris var á þeim tíma sem greint var frá máli hans. Eftir það segir Þórir frá því hvernig hann komst að því að þetta mál væri að koma upp á yfirborðið.
„Ég held að það hafi verið í mars 2017. Ég var bara kallaður á fund til Ara og ég var alveg handviss um að það væri verið að fara að ræða næstu verkefni, næsta leikár og svona. Ég sest niður og svona alvarlegur segir Ari mér frá því að honum hafi borist kvörtun utan Þjóðleikhússins frá föður stúlku sem á að hafa fengið mynd frá mér af kynfærunum á mér og að hún sé 15 ára. Ég tel mig vita um leið hvaða mál þetta er.“
Þórir segir þá sína hlið á sögunni en á þessum tíma var hann með Snapchat aðgang sem var nokkuð vinsæll. Að hans sögn fékk hann oft skilaboð frá konum eftir sýningar. „Hálfu ári, hálfu ári plús, fyrir þetta fékk ég vinabeiðni á Snapchat þar sem ég fæ skilaboð: „Hæ við erum tvær vinkonur sem að sáum Hróa hattar sýninguna, okkur fannst þú ótrúlega heitur bla bla bla… langar að eiga með þér kvöld“. Svo fékk ég einhverjar myndir þar sem voru engin andlit af þessum stelpum, bara nektarmyndir.“
Samkvæmt Þóri sögðu stelpurnar við hann að þær væru 18 ára. „Mér finnst þetta ekkert kúl skilurðu? Þetta er ekkert sem ég er stoltur af. Vissulega eftir þetta tímabil myndi ég sennilega bregðast öðruvísi við í dag en mér fannst þetta bara spennandi tilhugsun. Þannig ég beit á agnið og endaði á að senda mynd af sjálfum mér og þá kom bara um hæl: „Náðum þér! Við höfum heyrt að þú sért svona maður“ og lalalala eitthvað“. Mér náttúrulega dauðbrá og var rosalega hræddur því málið er bara þess eðlis þegar börn eru í hlut.“
Þórir segist hafa svarað stelpunum eftir þetta. „Þá svaraði ég meira að segja: „Þér náðuð mér ekkert, þið stofnuðuð til þessa samskipta við mig og luguð í þokkabót um hvað þið eruð gamlar“. Þannig að þó mér hafi brugðið þarna þá hugsaði ég að þetta færi ekkert, þetta væri ekkert mál. En svo kom á daginn að þetta varð meira mál úr þessu,“ segir hann.
„Þegar Ari segir þetta þá segi ég honum frá þessu, nákvæmlega eins og ég er að segja þér frá þessu. Mín frásögn af þessu hefur ekkert breyst. Í fjögur ár þá hef ég verið að segja sömu söguna af þessu. Ég fæ aðvörun frá Ara, einhvers konar óformlega munnlega aðvörun og trúðu mér ég tók hana til mín.“
Um hálfu ári eftir að aðvörunina er Þórir aftur kallaður á fund Ara. Hann var viss um að í þetta skiptið væri verið að fara að ræða leikárið og næstu skref en þegar hann kom á skrifstofuna sá hann pappíra á borðinu. Var sparnaður sögð vera ástæðan fyrir brottrekstrinum. „Ég vildi óska þess að það væri satt því þá væri ég í annarri stöðu en ég er í í dag.“
„Í hvaða stöðu ertu í dag?“ spyr Þóra þá og Þórir svarar. „Vonlausri, alveg vonlausri. Ég er búinn að vera meira eða minna atvinnulaus í fjögur ár að verða. Ég hef unnið í hjáverkum hér og þar fyrir tilstilli vina og vandamanna og þrjú verkefni eða atvinnur hef ég misst eftir ráðningu, bara af því ég er gúgglaður. Fyrsta síða á Google setur mig fram sem eitthvað skrímsli.“
Þórir fer þá yfir stöðuna sína í dag. „Staðan mín er þessi: Ég hef ekki rétt á atvinnuleysisbótum lengur, ég fæ ekki að vinna á Íslandi, hvorki í því sem ég er þrautþjálfaður, menntaður og reyndur í, og bara frekar góður í ef ég má segja það líka, ég má ekki vinna við það. Og síðasta vinna sem ég fékk, ég gafst upp á leiklistinni í rauninni, því ég er búinn að missa af kvikmyndaverkefni og stóru sjónvarpsverkefni erlendis. Þar var búið að ráða mig og skrifa undir samning þegar einhverjir lögfræðingar í Bandaríkjunum bara: „Hjálp hér er #MeToo maður“. Mér er bolað úr þeirri framleiðslu, það var í nóvember 2020, þá gafst ég upp.“
Eftir þetta tók Þórir meirapróf til að verða sér úti um atvinnu. „Frændi minn verður mér úti um atvinnu þar sem ég fæ að keyra öryrkja og fatlaða um borgina í fjóra daga áður en einhver forstjóri á sambýli í borginni hringir í Strætó og kvartar yfir því að ég sé að keyra. Hann biður yfirmanninn um að gúggla og það er gert og ég er bara rekinn samdægurs. Eins og ég sé þannig, hafi komið mér í þannig stöðu að það sé fólk sem auðvelt er að brjóta á eða eitthvað,“ segir hann.
„Ég er ekki svona maður. Það að þurfa að sitja svona undir því aftur og aftur, ég var líka búinn að ákveða að ætla ekki að fella tár í þessu viðtali, en þetta er staðan sem ég er í. Ég hef ekki tölu á því hversu margar vinnur ég er búinn að sækja um, 200-300 síðustu árin. Þjónustustörf, hjúkrunarstörf, bílstjóradót, umönnun af ýmsu tagi, afleysingakennari.“