Ónefndur karlmaður var í desember árið 2020 sakfelldur fyrir húsbrot og líkamsárás en hann ruddist í heimildarleysi inn á heimili manns, veittist að honum og kýldi hann tvisvar sinnum í andlitið. Karlmaðurinn var þá einnig sakfelldur fyrir ofbeldi í nánu sambandi en hann ógnaði lífi, heilsu og velferð fyrrverandi sambýliskonu sinnar endurtekið og á alvarlegan hátt. Þá var hann einnig sakfelldur fyrir umferðarlagabrot en hann ók bifreið undir áhrifum fíkniefna.
Karlmaðurinn var dæmdur í átta mánaða fangelsi vegna brotanna. Hann var sviptur ökurétti í sex mánuði og dæmdur til að greiða samtals 815.928 krónur í miska- og skaðabætur.
Í dómi Héraðsdóms er meðal annars farið yfir það hvernig karlmaðurinn ógnaði lífi, heilsu og velferð fyrrverandi sambýliskonu sinnar. Hann viðhafði hótanir í garð kærasta hennar með skilaboðum sem hann sendi á hana. „Ef ég sé A þá er hann dauður,“ sagði hann til að mynda í einum skilaboðunum. „Im goinh to cave in his ugly ass face,“ sagði hann í öðrum skilaboðum til hennar.
Þá var einnig farið yfir andlegt ofbeldi, áreiti, ærumeiðingar, uppnefni, niðurlægingu og ásakanir sem karlmaðurinn sendi á fyrrverandi sambýliskonu sína. Skilaboðin spanna rúmar 7 blaðsíður í dómnum en um er að ræða afar ljót skilaboð. Hann segir ítrekað að hann hati fyrrverandi sambýliskonu sína í skilaboðunum auk þess sem hann kallar hana meðal annars „hóru“, „ligara“, „frekju“, „tussu“ og „kvikindi“.
Í skilaboðunum óskar hann þess að núverandi kærasti hennar smiti hana af hinum ýmsu kynsjúkdómum og hann segir að hann langi að hún finni „fyrir þessum sársauka og þessari höfnun“. „Mig langar svo mikið að sjá einhvern særa þig svona… þú att það fokking skilið,“ segir hann.
„Nú ertu bara orðin ein af þessum klassískum leiðinda þurkuntu íslenskum miðaldra konum.“
Á innan við mínútu sendir hann 13 skilaboð þar sem hann segist hata hana. „ÉG HATA ÞIG SVO FOKKING MIKIÐ,“ segir hann einnig. „Þú verður alltaf fokking svikari, ligari og hóra í mínum augum.“
Ríkissaksóknari skaut málinu til Landsréttar 18. janúar á þessu ári eftir að karlmaðurinn vildi áfrýja dómnum.
Ákæruvaldið krafðist þess fyrir Landsrétti að refsingin yrði þyngd en karlmaðurinn krafðist þess að hann yrði sýknaður af því að hafa ruðst inn á heimili kærasta fyrrverandi sambýliskonu sinnar og veist að honum. Þá krafðist hann þess að refsing sín yrði milduð verulega og að hún yrði bundin skilorði að öllu leyti.
Einn brotaþolanna krafðist þess að miskabæturnar sem karlmanninum var gert að greiða sér yrðu hækkaðar í eina milljón króna ásamt vöxtum.
Karlmaðurinn lagði fram ný gögn fyrir Landsrétti, annars vegar lagði hann fram vegabréf sitt til að útskýra hvers vegna hann sótti ekki þing við aðalmeðferð málsins. Hins vegar lagði hann fram bréf tveggja sálfræðinga til staðfestingar á sálfræðimeðferð sinni.
Áfrýjun mannsins bar ekki þann árangur sem hann hafði hugsað sér eins og sjá má í dómi Landsréttar. Hann var ekki sýknaður í þeim ákærulið sem hann hafði óskað sér og hann fékk ekki dóminn skilorðsbundinn að öllu leyti. Hann fékk þó fimm mánuði af refsingunni skilorðsbundna og mun sá hluti dómsins því falla niður tveimur árum eftir uppkvaðningu dómsins, að því gefnu að hann haldi skilorð.
Þá þarf maðurinn að greiða öðrum brotaþolanum 200 þúsund krónur í málskostnað fyrir Landsrétti og hann þarf að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, 543.096 krónur. Kostnaður mannsins fyrir þessa 5 mánuði var því rúmar 740 þúsund krónur.