Þetta segir Kolbrún Bergþórsdóttir í ritstjórnargrein í Fréttablaðinu í dag. Hún segir að ef þefa eigi upp hvert einasta Covid-smiti muni sá eltingarleikur standa lengi yfir og engu skila nema viðvarandi höftum. „Sóttvarnayfirvöld virðast tilbúin í þann leik, eru jafnvel frekar spennt fyrir honum. Stór hluti almennings er það alls ekki. Það er löngu tímabært að breyta um áherslur,“ segir hún.
Hún bendir á að þátttaka í bólusetningum hér á landi hafi verið góð og nú sé jafnvel búið að gefa sumum þrjá skammta en lítið bóli á því frelsi sem fólki var lofað ef það léti bólusetja sig.
„Enn eru ströng höft við lýði og lítið vit virðist í þeim flestum. Endalaust er verið að telja fólki trú um að hættur leynist svo að segja alls staðar. Ótrúlega margir gleypa við þeim áróðri,“ segir hún.
Hún víkur síðan að menningunni og segir að ekki hafi borist fréttir af að fólk sé að smitast í stórum stíl á menningarviðburðum en samt sem áður kosti það mikla fyrirhöfn að sækja slíka viðburði. „Þar eru fjöldatakmarkanir og grímuskylda, hraðprófs er krafist og fólk má ekki blanda geði. Ekki nema von að margir forðist að leggja þetta á sig og kjósi að sitja heima. Menningarviðburðir eiga að vera vítamínsprauta fyrir sálarlífið, ekki vera íþyngjandi. Á hverjum degi er menningarviðburðum frestað eða hætt við þá vegna ýmiss konar takmarkana. Menningarlíf á Íslandi er að verða fyrir miklu höggi vegna hafta. Eigum við virkilega að taka því með brosi á vör?“ segir Kolbrún og bætir við að með höftunum sé verið að tala árangurinn af bólusetningum niður.
„Við getum ekki endalaust búið við höft vegna smita sem eru ekki í miklum mæli að valda alvarlegum veikindum. Mannréttindi einstaklinga eiga svo ekki að miðast við stöðu Landspítalans hverju sinni. Úrbóta er örugglega þörf á Landspítalanum, en það á ekki að setja almenning í fjötra þess vegna,“ segir hún að lokum.