Skiptum á þrotabúi Zf1 ehf. er lokið, að því er fram kemur í auglýsingu skiptastjóra í Lögbirtingablaðinu í dag. Lýstar kröfur námu rétt rúmum 164 milljónum króna og fengu kröfuhafar ekki eina staka krónu upp í kröfur þeirra.
Úr síðasta ársreikningi félagsins sem er fyrir árið 2019 má ráða býsna öra stækkun félagsins sem svo hefur endað með ósköpum ári síðar. Árið 2018 námu tekjur félagsins tæpum 110 milljónum, en höfðu ári síðar rétt tæplega áttfaldast og námu þá 840 milljónum.
Lítið virðist þó hafa orðið eftir innan fyrirtækisins af þessum 824 milljónum, eða um 12,6 milljónir, sem var hagnaður ársins 2019.
Langstærsti útgjaldaliðurinn í rekstri fyrirtækisins var „aðkeypt þjónusta,“ en gera má ráð fyrir að laun verktaka hafi fallið þar undir. Útgjöldin námu 694 milljónum af heildarútgjöldum upp á 824 milljónir.
Zf1 var eitt sinn á skrá Vinnumálastofnunar yfir starfsmannaleigur en þá skráningu er ekki lengur að sjá. Á heimasíðu félagsins segir, á ensku, að félagið sérhæfi sig í að „tengja“ fólk frá Eystrasaltsríkjunum við fyrirtæki á Íslandi sem vantar starfsfólk. Er þar mikið gert úr þörfinni fyrir vinnuafl á Íslandi á síðunni.
Í umfjöllun DV frá því í um niðurnítt fjölbýlishús í Vesturborginni frá því í júlí í fyrra kemur fram að starfsmenn Ztrongforce búi þar við bág skilyrði. Raunar voru skilyrðin svo slæm, að Ztrongforce ehf. var ekki rukkað um leigu fyrir búsetu starfsmanna sinna þar. DV ræddi jafnframt þá við forsvarsmenn starfsmannaleiga á landinu sem sögðu að Covid hefði leikið þann bransa rækilega grátt.