Skiptum þrotabús félags Eiríks Sigurbjörnssonar fyrrum eiganda og sjónvarpsstjóra kristilegu sjónvarpsstöðvarinnar Omega, Global Mission Network ehf., er lokið. Þetta kemur fram í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu nú í morgun.
Þar segir að lýstar kröfur í búið hafi verið rúm 41 og hálf milljón.
Fyrir svo til réttum mánuði var Eiríkur dæmdur í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi og til þess að greiða 109 milljónir í sekt vegna meiriháttar skattalagabrota. Hluti þeirra skattsvika voru samkvæmt dómnum framin í gegnum umrætt félag Eiríks, Global Mission Network ehf. Mun notkun Eiríks á kreditkortum í nafni félagsins hér heima hafa komið skattrannsóknaryfirvöldum á sporið.
Segir í dómnum að Eiríkur hafi þáð greiðslur frá Omega sem skráðar voru sem skuld Eiríks við félagið. Skatturinn vildi meina að sú skuld væri í raun dulbúnar tekjur Eiríks sem hann hafði ekki greitt tekjuskatt af. Dómarinn féllst á þau rök.