Fréttablaðið skýrir frá þessu en í dag er Evrópudagur vitundarvakningar um sýklalyf. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO og fleiri alþjóðlegar stofnanir hafa lýst því yfir að sýklalyfjaónæmi sé ein mesta heilbrigðisógnin sem mannkynið standi frammi fyrir í dag.
„Sýklalyf voru tímamótauppgötvun og ef við verðum ónæm fyrir þeim erum við komin aftur til baka fyrir síðari heimsstyrjöldina þar sem fólk dó úr sýkingum af sári eða lungnabólgu,“ segir Anna Margrét og bendir á að skynsamleg notkun sýklalyfja sé lykilatriðið í að stemma stigu við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis.
Árlega látast um 33.000 manns í Evrópu vegna sýkinga af völdum baktería sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum. „Því er mikilvægt að læknar noti sýklalyf með markvissum hætti, en sýnt hefur verið að bæði heildarnotkun sýklalyfja og hvernig þau eru notuð hefur áhrif á sýklalyfjaónæmi,“ segir Anna Margrét.
16% fækkun varð á ávísunum á sýklalyfjum hér á landi á milli áranna 2019 og 2020. Á síðasta ári var heildarfjöldi ávísana slíkra lyfja á hverja þúsund íbúa 505 en á tímabilinu 2015-2019 var meðalfjöldi ávísana 670 á hverja þúsund íbúa árlega.
Þennan árangur má þakka átaki sem var gert í fræðslu lækna og heilbrigðisstarfsfólks um notkun sýklalyfja en einnig koma auknar sóttvarnir vegna kórónuveirufaraldursins við sögu. „Fræðslan felur í sér mikilvægi þess að ávísa sýklalyfjum skynsamlega. Sýklalyf eru ekki notuð við veirusýkingum eins og kvefi og flensu,“ segir Anna Margrét og benti á að ef sýklalyf séu notuð á rangan hátt sé verið að auðvelda ónæmum bakteríum að vaxa og taka yfir.