Dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í hinu svokallaða Rauðagerðismáli verður áfrýjað af ákæruvaldinu. Þetta staðfestir Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari í samtali við fréttastofu Vísis.
Fjögur voru ákærð fyrir aðild að morðinu á Armando Beqirai með hljóðdeyfðri skammbyssu fyrir utan heimili hans við Rauðagerði í Reykjavík í byrjun árs. Angjelin Sterkaj var sakfelldur og dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir málið. Hin þrjú voru sýknuð.
Ríkissaksóknari mun krefjast þess fyrir Landsrétti að þau sem sýknuð voru í héraðsdómi verði sakfelld og að dómurinn yfir Angjelin verði þyngdur úr 16 árum. Saksóknarar kröfðust allt að 20 ára fangelsis við meðferð málsins í héraðsdómi.