„Þetta birtist þannig þegar maður er foreldri að maður fær tölvupóst. Það er aðstoðarskólastjóri sem skrifar undir ákvörðunina um að setja í sóttkví. Í sóttvarnalögum kemur ekkert fram um hlutverk skólastjórnenda eða skóla í þeim efnum. Ég held það hafi bara gleymst að það er verið að skerða borgaraleg réttindi,“ hefur Fréttablaðið eftir honum í dag í umfjöllun um málið.
Fram kemur að dæmi séu um að börnum, sem eru í smitgátt, sé meinað að mæta í skólann og eigi að skila skjáskoti með niðurstöðum úr sýnatöku.
Reglur hér á landi eru harðari en hjá nágrannaþjóðunum þegar kemur að sóttkví barna. Í Noregi fara börn ekki í sóttkví en þeim sem hafa átt í samskiptum við smitaðan einstakling er ráðlagt að taka heimapróf. Sömu reglur eru í gildi í Danmörku en þar er mælt með að börnin fari í PCR-próf. Í Svíþjóð og Bretlandi er svipuðum aðgerðum beitt.
Hvað varðar ummæli Bjarna Más sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, að það sé umhugsunarefni að gengið sé lengra hér á landi en önnur lönd hvað varðar sóttkví barna. „Við þurfum almennt í öllu er varðar börn og takmarkanir á lífi þeirra, að gæta að því að við séum að vernda þau en ekki einhvern annan. Það þarf að hafa það í huga þegar við ræðum mannréttindi barna að þau séu aldrei skert nema til að vernda þeirra eigin heilsu. Það þarf að vega og meta hversu mikil hætta þeim stafar af Covid og hversu mikil áhrif þetta hefur á líf þeirra almennt þegar kemur að skólagöngu, geðheilsu og fleira. Ekki síst þegar lengra líður á faraldurinn,“ sagði hún.