Eins og DV greindi frá rauf Helgi Jóhannesson, lögmaður, þögnina í gær varðandi þær ásakanir sem fram hafa komið í fjölmiðlum um kynferðislega áreitni í gegnum árin. Gekkst Helgi við ábyrgð í málinu og bað alla þá sem að eiga um sárt að binda eftir hegðun hans afsökunar.
Færslan féll í góðan jarðveg hjá mörgum vinum Helga í lögmannsstrétt sem að „lækuðu“ fyrirgefningarbeiðni lögmannsins. Þar á meðal var forseti Hæstaréttar, Benedikt Bogason, auk annars hæstaréttadómara.
Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, lögmaður og fyrrum borgarfulltrúi, vekur athygli á þessu á færslu á Facebook-síðu sinni og ljóst er að henni er ekki skemmt. „Talandi um íslenska réttarkerfið og gerendameðvirkni,“ skrifar Guðfinna.
Eins og gera mátti ráð fyrir vakti færsla Guðfinnu talsverða athygli og greinilegt er að hún féll í grýttan jarðveg á einhverjum vígsstöðvum. Þannig upplýsir Guðfinna að annar hæstaréttardómari hafi slitið rafrænni vináttu þeirra í fússi. Guðfinnu virtist skemmt yfir því. „En fyndið að segja frá því að Karl Axelsson hæstaréttardómari henti mér út af feisbúkk og blokkeraði mig í kjölfar þessarar færslu og kemst þar með í hóp með Ingu Sæland og Guðmundi Franklín,“ skrifar borgarfulltrúinn fyrrverandi.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem að umræða kviknar um umdeild „læk“ þeirra sem eru í æðstu stöðum réttarvörslukerfisins og hvaða merkingu bæri að leggja í þau. Í byrjun september vakti hegðun Helga Magnús Gunnarsson, varasaksóknari, á Facebook umtal en hann „lækaði“ meðal annars færslur þar sem þolendur kynferðisbrota, sem stigið höfðu fram, voru gagnrýndir.
Var hann í kjölfarið sakaður um óþolendavæna afstöðu og var meðal annars farið fram á að hann yrði settur af fyrir að lýsa skoðunum sínum með slíkum hætti.
Í samtali við mbl.is kvaððst Helgi Magnús ekki vera að sýna afstöðu gegn þolendum með því að líka við slík ummæl og að hann væri ekki að taka hlið gerenda.„Ég tel þetta ekki sýna afstöðu með einum né neinum. Það felst ekkert í þessu annað en stuðningur við tjáningarfrelsið og að báðir aðilar máls megi skýra sína hlið og ekkert meira. Ef það er einhver umræða í gangi þá er gott að við heyrum allar hliðar máls. Það er bara hluti af eðlilegri skoðanamyndun,“ sagði Helgi Magnús.