Þórhallur Gunnarsson, framkvæmdastjóri miðla hjá Sýn, fór yfir langan ferill í fjölmiðlum í hlaðvarpsviðtali í þættinum Farðu úr bænum, en þátturinn kom út í dag.
Þórhallur sagði meðal annars frá því þegar hann vann að umfjöllun um Baugsmálið fyrir Kastljós á árum áður. Í kjölfar fréttaflutningsins segir hann að margir lögmenn tengdir Baugi hafi lagst í herferð gegn umfjölluninni, en að mörgum árum seinna hafi Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi forstjóri Baugs, beðist afsökunar. Hann segir þó að sú afsökunarbeiðni hafi aldrei komið fram opinberlega.
Þórhallur vann fréttaskýringuna ásamt Sigmari Guðmundssyni, en hann segir að hún hafi tekið á.
„Eftir þessa umfjöllun voru flestir lögmenn landsins, sem voru á mála hjá Baugi, að skrifa allskonar greinar í öll dagblöðin að véfengja þessa frásögn. Þannig að ég og Sigmar vorum bara fram á nætur að svara allskonar ásökunum og ósannindum.“ segir Þórhallur og nefnir sem dæmi grein sem Jón Ásgeir skrifaði:
„Meðal annars sagði Jón Ásgeir þau ósannindi í opnu bréfi í Morgunblaðinu að ég væri tengdur Jóni Gerhaldi [Sullenberger], sem var einn aðalmaðurinn í Baugsmálinu, og að ég hefði sjálfur verið í þessari snekkju í Flórída.“ segir hann og bætir við: „Mér var mjög miður að hann skyldi hafa sagt ósatt þarna, sérstaklega þar sem ég hafði aldrei komið til Flórída, og því ekki komið í þessa snekkju.“
Sagði Þórhallur að síðar hafi Jón séð að sér. „Hann bað mig afsökunar seinna, en hefur aldrei gert það opinberlega, en ég lét það duga.“
Hér fyrir neðan er hægt að hlusta á viðtal Kötu Vignisdóttur við Þórhall Gunnarsson, en þar fjallar hann um ferill sinn og fer um víðan völl.