Í kvöld hélt fréttaskýringaþátturinn Kveikur umræðuþátt sem varðaði kynferðisofbeldi. Ástæðan var sú að síðasti þáttur Kveiks varðaði leikarann Þóri Sæmundsson sem vakti mikla athygli, en fékk ólíkar viðtökur, líkt og alþjóð veit.
Gestir þáttarins í kvöld voru þau: Ólöf Tara Harðardóttir meðlimur Öfga, Sóley Tómasdóttir fyrrverandi borgarfulltrúi og kynja- og fjölbreytileikafræðingur, Katrín Ólafsdóttir aðjúnkt við Háskóla Íslands, og Þórður Kristinsson doktorsnemi í mannfræði og jafnréttisfræðari.
Þóra Arnórsdóttir þáttarstjórnandi fullyrti að það væri tregða á meðal almennings að taka þátt í samtalinu um kynferðisofbeldi vegna ótta við það að „lenda í hakkavélinni“. Hún sagði það einnig eiga við um fólk með vel ígrundaðar skoðanir og fólk í akademíunni. Og vitnaði í kjölfarið í rithöfundinn Eirík Örn Norðdahl, sem sagði:
„Þessi mikla pólarísering, þar sem við hlaupum svo rosalega hratt til og dæmum. Þá er það ekki bara gerandinn sem er dæmdur heldur allir sem veita þeirri hugmynd eitthvert fulltingi að viðkomandi eigi sér málsbætur, eða eigi sér einu sinni sjónarhorn,“
Í kjölfarið óskaði Þóra eftir viðbrögðum Sóleyjar Tómasdóttur, sem sagði:
„Þegar við tölum um pólaríseringu og að við verðum bara að hlusta á hvert annað, þá erum við svolítið að setja þolendur og gerendur á jafnan stað. Ég er ekki viss um að það sé sanngjörn krafa að ætlast til þess af þolendum að hlusta á gerendur og fólk sem er meðvirkt gerendum.“ sagði Sóley og minntist síðan á það mikla ofbeldi sem konur hafa mátt þola í gegn um aldirnar.
„Núna þegar konur eru farnar að tala og krefjast þess að gerendurnir sem beita þær ofbeldi sæti einhverskonar ábyrgð, þá er komin upp svona ný tegund af þöggunaraðferð, af því að við óttumst alltaf að beita sjónum okkar að gerendum.“ sagði hún og bætti síðan við að tal um að þolendur þyrftu að róa sig og meint mannorðsmorð á gerendum væri ósanngjarnt gagnvart þolendum. Hún sagði að kjarni málsins fælist í því að fólk ætti erfitt með að horfast í augu við að það væru gerendur í samfélaginu.
Stuttu seinna í þættinum tjáði Sóley skoðanir sínar á því að fólk þyrði ekki að tjá sig um umrædd málefni.
„Þetta er í raun eitthvað sem mér finnst eðlilegt. Sorry to say. Mér finnst eðlilegt að fólk stígi inn í umræðu sem það hefur ekki mjög ígrundaðar skoðanir á. Ég fer ekki inn í umræðu um byggingamannvirki, eða möskvastærðir. Það er viðurkennd sérfræðiþekking annars fólks. Ef ég færi inn í þá rökræðu þá yrði ég rökþrota á örfáum mínútum. Það er samt ekki litið á það sem jarðsprengjusvæði, eða viðkvæma umræðu. Nei það er bara viðurkennd sérfræðiþekking.“ Sagði hún og bætti við:
„Við verðum að fara að viðurkenna þá sérfræðiþekkingu sem felst í reynslu og menntun kynjafræðinga og aktísvista. Þetta er fólk sem talar af reynslu og þekkingu, og það er bara alveg eðlilegt að fólk sé ekki að setja fram einhverjar illa ígrundaðar skoðanir um þessi mál,“