Víða um heim er nú þrengt að réttindum þeirra sem ekki vilja þiggja bólusetningu við Covid-19. Sigmundur Erni Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins, fór yfir takmarkanir gegn óbólusettum í nokkrum löndum, í leiðara blaðsins um síðustu helgi, og velti upp þeirri spurningu hvort kominn sé tími til að Íslendingar hugleiði slíkar aðgerðir.
Ole Anton Bieltvedt athafnamaður segir í grein á Vísir.is að hann telji sömu frelsisskerðingar bólusettra og óbólusettra standast illa í ljósi þess hvað síðarnefndi hópurinn valdi miklu álagi á heilbrigðiskerfið. Ole segir:
„Á sama tíma blasir það við, að innlagnir óbólusettra, um 10% af þjóðinni, hafa síðustu daga og vikur verið 30-50% af öllum innlögnum. M.ö.o. valda óbólusettir þrisvar til fimm sinnum meiri innlögnum, en bólusettir.
Mitt mat er, að, ef þessar umfram innlagnir óbólusettra – sem sagt þrisvar til fimm sinnum fleiri, en þeirra bólusettu – hefðu ekki komið til, hefði ekki verið þörf á, að innleiða nýjar atferlis- og samkomutakmarkanir nú.
Það frelsi, sem hefur ríkt síðustu vikur og mánuði, hefði þá getað ríkt áfram, nú í aðdraganda og önnum jóla.“
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir í viðtali við Vísir.is að það hafi verið lending hjá ríkisstjórninni að upplýsa um ágæti bólusetninga í stað þess að krefjast bólusetningarvottorða í almannarými, t.d. á veitingastöðum.
Ólína Þorvarðardóttir, rithöfundur og fræðimaður, telur ótækt að lögþvinga fólk í bólusetningu með því að takmarka frelsi óbólusettra. Ólína birtir svohljóðandi pistil um málið á Facebook-síðu sinni:
„Nú er hafin umræða um að lögskylda fólk í bólusetningu enda sé það svo „þungur baggi“ á heilbrigðiskerfinu, eins og ég les í veffréttum dagsins. Þó segir í sömu fréttum að óbólusettir séu helmingur sýktra og helmingur alvarlega veikra. Ekki nema helmingur! Það þýðir að við sem erum fullbólusett erum jafn þungur baggi. Við erum jafn smitandi, veikjumst jafnoft og jafn mikið ef marka má fjölmiðla, og það þrátt fyrir fullyrðingar um að við veikjumst síður og minna, þá sýna tölur annað.
Í því ljósi finnst mér fráleitt að ætla að storka almennum mannréttindum eins og ákvarðanafrelsi með því að lögþvinga fólk í bólusetningu sem tölur sýna að er ekki nema takmörkuð vörn í þessum faraldri og leysir ekki af hólmi önnur sóttvarnarráð og reglur.
Það er óráð.“