Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að hætt sé við að áminning lögmannsins falli úr gildi þar sem kærandinn hefur hvorki bolmagn né vilja til að verja úrskurðinn fyrir dómi. Samkvæmt núgildandi reglum þá er það hlutverk kærenda að verja áminninguna fyrir dómi og standa straum af kostnaði við málareksturinn. LMFÍ hefur enga aðkomu að slíkum málum. Ef kærandi heldur ekki uppi vörnum fyrir dómi er hætt við að áminning lögmannsins verði felld úr gildi.
Fréttablaðið hefur eftir Ingimari Ingasyni, framkvæmdastjóra LMFÍ, að öðru hvoru skjóti lögmenn, sem una ekki úrskurði úrskurðarnefndarinnar, niðurstöðum hennar til dómstóla. Þar sem LMFÍ sé ekki málsaðili geti félagið ekki tekið til varna. Hann segir að félagið hafi kallað eftir breytingum á gildandi lagaumhverfi vegna skorts á skýrari valdheimildum og viðurlögum, álíka og þeim sem Fjármálaeftirlitið hefur samkvæmt ákvæðum innheimtulaga.
Einar Gautur Steingrímsson, lögmaður, sagði að Lögmannafélagið þurfi að fá vopn sem bíti.