Íslenskur karlmaður á fimmtugsaldri er grunaður um að hafa frelsissvipt íslenska konu í Hollandi í síðustu viku og nauðgað henni. Fréttablaðið greinir frá þessu.
Ævar Pálmi Pálmasson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar, staðfesti í samtali við Fréttablaðið að málið væri til rannsóknar. „Við getum staðfest að lögreglan sé með til rannsóknar ofbeldismál vegna atviks sem átti sér stað í Hollandi. Ekkert meira en það,“ sagði hann.
Heimildir Fréttablaðsins herma að meintur gerandi hafi tvívegis verið dæmdur fyrir nauðganir og ofbeldi hér á landi. Árið 2018 var hann síðast dæmdur í fangelsi en hann fékk fjögur ár fyrir nauðgun.
Lögregluyfirvöld í Hollandi hafa ekki staðfest hvort maðurinn sé í haldi en samkvæmt Fréttablaðinu er lögreglan í Amsterdam á eftir manninum.