fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fréttir

Halldór bregst við umfjöllun um fjármögnun glæsivillunnar – „Púðurskot“ úr smiðju Róberts Wessman

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 16. nóvember 2021 09:58

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Halldór Kristmannsson, fyrrum framkvæmdastjóri hjá Alvogen og Alvotech hefur sent frá yfirlýsingu vegna fréttar Vísis í dag. Þar er fjallað um kaup hans og fjármögnun á einu dýrasta og stærsta einbýlishúsi landsins við Sunnuflöt 48 í Garðabæ. Húsið, sem  hefur verið uppnefnt 2007-martröðin, er nú til sölu og kemur fram í fréttinni að Halldór vonist eftir að fá um milljarð króna fyrir fasteignina.

Halldór keypti húsið, sem þá var aðeins tæplega 1.000 fermetra steypukassi, árið 2014 og kostaði miklu til við uppbyggingu þess. Hann fékk lán uppá 325 milljónir króna frá Arion banka til þess að koma húsinu í stand en að auki fékk hann 300 milljón króna lán frá fjárfestingafélaginu Fossum ehf., meðal annars til að gera upp hluta af skuldunum við Arionbanka.

Fossar ehf. er að stærstum hluta í eigu hjónanna Sigurbjörn Þorkelssonar og Aðalheiðar Magnúsdóttur en í frétt Vísi er ýjað að því að félagið hafi leppað lánið fyrir hönd auðkýfingsins Björgólfs Thors Björgólfssonar.

Þá er greint frá því að árið 2020 hafi Fossar ehf. skyndilega leyst fasteignina úr veðböndum og lánið hafi verið greitt upp. Er þeirri spurningu velt upp hvernig Halldóri hafi tekist að greiða niður lánin á eigninni um minnst 375 milljónir króna á fimm árum.

Eins og alþjóð veit eru Björgólfur Thor og Róbert svarnir fjandmenn og segja má að kjarninn í hinni löngu grein Vísis sé í þessari setningu:

Til að gera langa sögu stutta hefur þeirri kenningu verið haldið fram fram í eyru blaðamanna Vísis, með ofangreindum rökstuðningi, að Sigurbjörn sé milligöngumaður fyrir Björgólf Thor með fyrirgreiðslu til Halldórs, lán sem svo var afskrifað, í skiptum fyrir upplýsingar úr herbúðum Róberts Wessmann. Erkióvinarins.

Í fréttinni eru meðal annars birtar myndir af fundi Björgólfs Thors og Magnúsar í London um árið.

Svaraði með yfirlýsingu rúmri klukkustund síðar

Ekki náðist í Halldór við vinnslu fréttar Vísis. Hann brást hins vegar hratt við fréttaflutningum og gaf út yfirlýsingu rúmri klukkustund síðar þar sem hann vísar efni fréttarinnar alfarið á bug og segir að um „púðurskot“ úr smiðju Róberts Wessman sé að ræða. Hann segir fréttina í öllum aðalatriðum ranga og byggða á órökstuttum vangaveltum

Yfirlýsing Halldórs:

„Ég held það komi nú fáum á óvart að Róbert beiti sérkennilegum samsæriskenningum við að klekkja á meintum óvildarmönnum. En ég er hugsi yfir því að ritstjórn visir.is samþykki að birta slíkt slúður og að fjölmiðlar hafi svona mikinn áhuga á mínum persónulegum fjármálum. Ég hef orðið var við þennan rógburð undanfarna mánuði og því virðist hafa verið markvisst dreift til fjölmiðla og fyrrverandi samstarfsmanna. Það er því  kærkomið að fá að leiðrétta þessa vitleysu.

Viðskipti mín fyrir sex árum hafa nákvæmlega ekkert með óvildarmenn Róberts að gera, heldur tengjast þau einum af mörgum fjárfestingaverkefnum mínum í gegnum árin. Þá upplýsi ég ennfremur að umrædd viðskipti tengjast ekki beint heimili fjölskyldu minnar, heldur ótengdu verkefni. Því verkefni er ólokið enda um langtíma fjárfestingu að ræða. Uppgjör eigna og skulda því tengt hefur ekki átt sér stað. Ég hef nú þegar boðið ritstjóra visir.is að sjá öll gögn sem tengjast umræddum viðskiptum.

Að lokum vill ég árétta að ágreiningur minn við Róbert hafa ekkert með meinta óvildarmenn hans að gera. Eftir 18 ára samstarf gat ég ekki lengur horft upp á ósæmilega hegðun Róberts gagnvart nánasta samstarfsfólki.  Ég hafði byggt upp alþjóðlega ímynd af Róbert sem ég taldi ákjósanlega og passaði við þau vörumerki sem ég hafði skapað hjá Actavis, Alvogen og Alvotech. Eftir morðhótanir, „kýlingarleiki“ og aðra ósæmilega hegðun undir áhrifum áfengis, rann smám saman upp fyrir mér að ég hafði í rauninni skapað „falsa“ ímynd. Samviskan var farin að naga mig. Ég taldi mig ekki eiga annan kost en að upplýsa stjórnir Alvogen og Alvotech um málavexti. Það var ákvörðun Róberts að opna málið í fjölmiðlum í stað þess að leysa það innanhúss og nú kemur enn eitt „púðurskotið“.  Allt virðist þetta gert til að freista þess að tengja meinta óvildarmenn við sex ára gömul viðskipti, skuldabréf á fasteign eða fjármögnun á lögfræðikostnaði. Það er auðvitað fjarstæðukennt og á sér enga stoð í raunveruleikanum. Ég hef ekki fengið fjárhagslega aðstoð af neinum toga vegna lögfræðikostnaðar bara þannig að því sé haldið til haga og öðrum atriðum hef ég svarað hér að ofan.

Fyrst Róbert er farinn að deila upplýsingum með fjölmiðlum – þá skora ég á hann að gera hreint fyrir sínum dyrum. Þöggun og gerendameðvirkni innan fyrirtækjanna má ekki festast í sessi. Það segir sig sjálft að fólk getur ekki átt á hættu að verða fyrir líkamlegu ofbeldi í vinnunni eða þeim sagt upp störfum um miðjar nætur.

Starfsmenn, viðskiptavinir og hluthafar eiga einfaldlega betra skilið.“

Þá segist Halldór hafa vitað af „spæjara“ Róberts í London í júní þegar hann hafi átt fund með breskum lögmanni sínum.

Auðvitað sjálfsagt mál ef fjölmiðlar vilja birta myndir af mér á fundum með óvildarmönnum Róberts en þetta er auðvitað löngu eftir að ég hætti sem framkvæmdastjóri hjá fyrirtækjunum og ekkert leyndarmál. Ég get einnig líka upplýst að ég hef hitt og átt í samskiptum við fjölmarga aðra óvildarmenn Róberts eftir að ég lauk störfum. Björgólf Thor Björgólfsson hef ég einnig átt samskipti við og það hefur aldrei verið neitt leyndarmál. Hann upplýsti mig meðal annars um brottrekstur Róberts úr starfi forstjóra Actavis, vegna ósæmilegrar hegðunar og alvarlegs rekstrarvanda fyrirtækisins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sýknaður að hluta eftir bílaeltingaleik í Kjós – Þótti ekki líklegur til stórræða á 19 ára gömlum bíl

Sýknaður að hluta eftir bílaeltingaleik í Kjós – Þótti ekki líklegur til stórræða á 19 ára gömlum bíl
Fréttir
Í gær

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Björn Valur líkir ferð Sigmundar Davíðs í VMA við æluferð Ásmundar Einars

Björn Valur líkir ferð Sigmundar Davíðs í VMA við æluferð Ásmundar Einars