fbpx
Fimmtudagur 13.mars 2025
Fréttir

„Að það taki 2-3 ár að klára venjulegt kynferðisofbeldismál er bara algjörlega til skammar“ 

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 16. nóvember 2021 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Staða kynferðisbrota á Íslandi hefur verið áberandi í umræðunni síðustu vikur. Umræðan hefur verið hávær og hörð og ljóst er að þolinmæði kvenna, sem bíða eftir að staðan verði bætt, er á þrotum ef ekki alveg búin.

Helga Vala Helgadóttir, þingman Samfylkingarinnar og Sigurbjörg Sara Bergsdóttir, þerapisti, ræddu málin í Pallborðinu hjá Vísi í dag og voru sammála um það að tími sé kominn fyrir yfirvöld að bregðast við ákalli um úrbætur.

Sigurbjörg Sara vakti töluverða athygli um helgina þegar hún, í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2, sagði að umræðan, eins vægðarlaus og hún er orðin í dag, geti verið skaðleg bæði þolendum sem og gerendum og tími sé kominn til að ákveða hvernig og hvort gerendur kynferðisbrota eigi afturkvæmt í samfélagið.

Uppræta þessa meinsemd

Helga Vala sagði í Pallborðinu í dag að umræðan væri vissulega hávær en hún væri þó þörf.

„Við þurfum að uppræta þessa meinsemd í samfélaginu okkar sem hefur grasserast ekki bara í ár, ekki nokkur ár heldur áratugi og örugglega árhundruði.“

Þessi svokölluðu öfgar í umræðunni muni leiða til þess með tíð og tíma að samfélagið breytist til batnaðar en hún geti þó verið skaðleg bæði gerendum og þolendum á meðan hún á sér stað.

Sigurbjörg tók undir það og benti á að hún þekki það úr vinnu sinni með þolendum kynferðisbrota að sumir þeirra kæri sig síður að opinbera þau brot sem þeir hafi orðið fyrir en sjái enga aðra leið til að knýja fram réttlæti.

Sigurbjörg ítrekar þó það sem hún sagði á sunnudaginn að það megi ekki gera umræðuna þannig að í reynd sé verið að beita fólk ofbeldi með orðum.

Fullkomlega til skammar

Helga segir að eitt helsta vandamálið hvað varðar kynferðisbrot og réttarkerfið sé langur málsmeðferðartími.

„Málsmeðferðartíminn er bara til skammar, fullkomlega til skammar. Að það taki 2-3 ár að klára venjulegt kynferðisofbeldismál er bara algjörlega til skammar.“

Sigurbjörg tekur undir þetta og segir að hún hafi séð í störfum sínum að það sé þolendum gífurlega erfitt að vinna úr sínum málum þegar þeir fá enga niðurstöðu. „Þeir eru bara í lausu lofti að reyna að vinna úr alvarlegu ofbeldi.“

Varðandi umræðuna í dag er Helga sammála Sigurbjörgu með að það þurfi að gefa gerendum ofbeldis færi á að snúa af villu síns vegar.

„Gefa þeim tækifæri til að lifa áfram því við aðhyllumst ekki dauðarefsingu á Íslandi.“

Sé það ekki gert þá sé verið að skapa hóp í samfélaginu sem sé algjörlega utangarðs og geti ekki séð fyrir sér og sínum eða átt í eðlilegum samskiptum við fjölskyldu og vini.

Umræðan geti einnig verið það hatrömm að þolendur hugsi sig um tvisvar að leita réttar síns ef um nákominn er að ræða því þeir óttist skrímslavæðinguna.

„Við megum ekki taka völdin svona mikið af þolendum að aðrir keyri umræðuna of hart þannig að þolandinn í raun verði fyrir tvöföldu ofbeldi.“

Með stimpil á enninu

Sigurbjörg segir að horfa verði einnig til þess að margir gerendur hvers konar ofbeldis hafi sjálfir lent í ofbeldi. Ofbeldið sem þeir beita sé því birtingarmynd af þeim sársauka sem gerendur hafa sjálfir orðið fyrir.

Helga bendir þá á að það að beita ofbeldi sé ákvörðun sem gerandi tekur. „Þetta er ekki ósjálfráð framkvæmd, þetta er ákvörðun sem gerandinn tekur að beita ofbeldi.“

Eins sé ósanngjarnt í umræðunni að þolendur eigi alltaf að stíga fram undir nafni því með því eigi þeir yfir höfði sér að fá á sig ákveðinn stimpil.

„Hver vill vera með stimpilinn á enninu að vera þolandi?“

Eins telur Helga að það þurfi að gera greinarmun á því í umræðunni þegar rætt er um saknæma háttsemi – refsilagabrot, eða grófan dónaskap.

„Það verður að passa að setja þetta ekki allt saman.“

Auka þarf fjárveitingar til lögreglu

Helga telur að stjórnvöld þurfi nú að stíga inn í þessi mál. Það þurfi að auka fjárframlög til lögreglu svo það sé hægt að fjölga rannsakendum í kynferðisbrotamálum. Eins megi ákæruvaldið láta reyna á fleiri mál fyrir dómi því Helga óttast hreinlega að dómarar á Íslandi fái ekki nægilega reynslu af þessum málum og fái ekki að sjá hversu fjölbreytt og ólík viðbrögð og framkoma bæði geranda og þolenda fyrir og eftir brot sem og á meðan brotinu stendur.

„Ég var að vinna í mjög grófu ofbeldismáli þar sem þolandinn á endanum fær far með gerandanum í bíl á ákveðinn annan stað til að komast í var, því viðkomandi þorði ekki að vera ein eftir á brotstað.“

Þó það séu kannski ekki eðlileg viðbrögð við fyrstu sýn þá sé ekki hægt að gera þá kröfu til þolenda að þeir hagi sér með rökréttum eða fyrirfram ákveðnum hætti eftir að brotið hefur verið á þeim.

Helga tekur einnig undir með Þorbjörgu Ingu Jónsdóttur lögmanni, sem sagði nýlega að lögregla færi í manngreinaálit eftir þjóðfélagsstöðu í kynferðisbrotamálum.

„Það var ekki eins að koma í skýrslutöku með heimilislausa konu og svo konu í dragt.“

Telur Helga að líklega sé ekki um fordóma lögreglufólks að ræða heldur sé þetta afleiðing af því að rannsakendur séu ofhlaðnir verkefnum og þurfi að velja og hafna hvaða mál þeir leggi áheyrslu á.

Enginn almennilega öruggur í dag

Sigurbjörg segir að það þurfi að bæta kerfið svo það grípi þolendur betur. Það sé vinna sem þurfi að eiga sér stað í öllum grunnþáttum samfélagsins – heilbrigðiskerfi, löggæslu, menntakerfi og samgöngukerfinu. Tryggja þurfi að þolendur geti komist í skjól og einnig trygga gerendum einhvers konar ramma.

„Það er enginn almennilega öruggur í dag.“

Eins þurfi að taka tillit til þess í umræðunni að drengir verða líka fyrir ofbeldi og finnst mörgum erfitt að stíga fram sökum kyns síns og kröfum samfélagsins um að þeir séu karlmenn.

Helga Vala telur ekki rétt að þyngja fangelsisdóma, frelsissvipting sé gríðarlega íþyngjandi. Hins vegar sé ótækt að dómarar séu að dæma gerendum vægari refsingar sökum tafa í málsmeðferð.

„Það er algjörlega ótækt að dómsvaldið taki ákvörðun um að beita vægari refsingu eða refsilækkun í þágu geranda eða sakbornings þegar málsmeðferðartíminn er langur en taka ekkert tillit til þess verulega þunga sem hefur hvílt á brotaþola allan þennan tíma.“

Helga skorar á dómara að dæma þolendum í slíkum tilvikum hærri miskabætur þar sem það að hægagangurinn sé ríkisvaldinu að kenna.

„Ríkið sem ber ábyrgð á þessari miklu töf á að borga.“

Bæði Helga og Sigurbjörg eru sammála um það að það þurfi að stytta málsmeðferðartímann með því að styrkja löggæsluna og að kerfið þurfi að verða þolendavænna og grípa þolendur ofbeldis og vanrækslu frá frumbernsku.

Helga að lokum þakkaði þeim fjölmörgu sem hafa stigið fram undanfarið – þeirra framlag skipti máli.

„Ég vil líka bara þakka þeim fjölmörgu sem eru að stíga fram og segja frá því það mun hafa mjög mikil áhrif í framtíðinni fyrir börnin okkar og bara fyrir framtíðina.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Geðvernd og SÍBS áfram í pattstöðu út af Reykjalundi – Rúmlega hálfrar aldar gamall samningur ódrepandi enn þann dag í dag

Geðvernd og SÍBS áfram í pattstöðu út af Reykjalundi – Rúmlega hálfrar aldar gamall samningur ódrepandi enn þann dag í dag
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Sýður upp úr hjá Sósíalistum: Segist hafa upplifað útskúfun fyrir að segja sannleikann „um ofríki, andlegt ofbeldi og trúnaðarbrot Gunnars Smára“

Sýður upp úr hjá Sósíalistum: Segist hafa upplifað útskúfun fyrir að segja sannleikann „um ofríki, andlegt ofbeldi og trúnaðarbrot Gunnars Smára“
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Manndrápsmálið: Gæsluvarðhalds krafist – Búið að leiða einn fyrir dómara

Manndrápsmálið: Gæsluvarðhalds krafist – Búið að leiða einn fyrir dómara
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Manndrápsmálið: Þrír lausir úr haldi lögreglu

Manndrápsmálið: Þrír lausir úr haldi lögreglu
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Íslendingar steinhissa á Trump: „Þetta á eftir að enda með einhverjum ferlegum ósköpum“

Íslendingar steinhissa á Trump: „Þetta á eftir að enda með einhverjum ferlegum ósköpum“
Fréttir
Í gær

Jóhanna og Steinunn misstu syni sína unga – Hvernig er hægt að lifa með brostið hjarta?

Jóhanna og Steinunn misstu syni sína unga – Hvernig er hægt að lifa með brostið hjarta?
Fréttir
Í gær

Manndrápsmálið: Sjötti handtekinn eftir eftirför – Konu leitað

Manndrápsmálið: Sjötti handtekinn eftir eftirför – Konu leitað
Fréttir
Í gær

Fimm aðilar í haldi lögreglu vegna andláts manns

Fimm aðilar í haldi lögreglu vegna andláts manns
Fréttir
Í gær

Nauðsynlegt að koma á eðlilegri samskiptum við Rússland þó að samskiptin verði ekki góð lengi

Nauðsynlegt að koma á eðlilegri samskiptum við Rússland þó að samskiptin verði ekki góð lengi