Karlkyns starfsmaður leikskólans Sælukots í Reykjavík hefur verið kærður fyrir kynferðisbrot. Móðir þriggja ára stúlku leggur kæruna fram fyrir hönd dóttur sinnar sem hún segir að hann hafi brotið á þrívegis. Samkvæmt lýsingum barnsins er um gróf brot að ræða. Þetta kemur fram á RUV.
Barnið sagði fyrst frá í fyrrahaust og málið tilkynnt til barnaverndarnefndar Reykjavíkur sem lagði til að maðurinn kæmi ekki nálægt barninu en hann var þó látinn starfa í afleysingum á deildinni hennar.
RUV greinir frá því að í sumar hafi stúlkan farið að sýna móður sinni kynferðislega hegðun sem hún sagðist hafa lært af manninum. Barnavernd var þá aftur látin vita og þáverandi leikskólastjóri lét barnið hitta starfsmanninn, faðma hann og sættast við hann, hefur RUV eftir ömmu barnsins.
Barnavernd lokaði málinu
Framkvæmdastjóri leikskólans hafi síðan yfirheyrt barnið með aðstoð túlks og niðurstaðan hafi verið að barninu hefði dreymt brotin. Barnavernd hafi siðan, að sögn ömmunnar, lokað málinu. Nú í ágúst hafi barnið síðan sagt frá þriðja brotinu.
Greint var frá því í gær að fyrrum starfsmenn leikskólans Sælukots á Þorragötu í Reykjavík, sem og aðstandendur barna sem hafa dvalið þar skora á yfirvöld að láta til sín taka í málefnum leikskólans sem þau segja í miklum ólestri. Áskorunin var sent til fjölda aðila, svo barnamálaráðherra, Barnavernd Reykjavíkurborgar, Ríkislögreglustjóra og Umboðsmann barna.
Ógnarstjórn og andlegt ofbeldi
Með bréfinu fylgja frásagnir fyrrum starfsmanna þar sem þeir lýsa ógnarstjórn, kvíða, undirmönnum, skort á faglegri þekkingu, andlegu ofbeldi, hættulegum vinnuaðstæðum og áreitni rekstraraðila utan skilgreinds vinnutíma, svo dæmi séu tekin. Í einni frásögninni segir:
„Öryggi barnanna á leikskólanum var og er að mínu mati ógnað og þar urðu óþarfa slys sem má rekja til ofangreindra aðstæðna. Þrátt fyrir ítrekuð samtöl, fundi og ábendingar um vankanta og mögulegar úrbætur þá voru engar aðgerðir gerðar af höndum stjórnenda. Alvarlegast þykir mér þó, hvar er eftirlitið? Hvernig stendur á því að svona sé leyft að viðgangast á Íslandi?“