Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Ragnheiði Ósk Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, að öllu hafi verið stillt upp á föstudaginn og því sé allt til reiðu. Hún sagði að sama fyrirkomulag verði viðhaft núna og var í vor nema hvað nú sé reynt að raða þessu þannig upp að röðin sé sem minnst úti vegna veðurs. Að öðru leyti séu ferlarnir hinir sömu og í vor.
Sex mánuðir þurfa að vera liðnir frá skammti númer tvö til að fólk sé boðað í örvunarbólusetningu. Af þeim sökum verður bólusett í sömu röð og gert var í vor. Allir munu fá bóluefni frá Pfizer eða Moderna en mikið er til af þeim. Markmiðið er að bólusetja 160.000 manns fyrir jól, eða um 10.000 á dag.
Ragnheiður sagði að af þessum fjölda séu um 110.000 til 120.000 á höfuðborgarsvæðinu.
Bólusett verður í Laugardalshöll á mánudögum, þriðjudögum og miðvikudögum. Fólk fær boð um að mæta á ákveðnum tíma en ef það getur ekki mætt þá getur það mætt síðar að sögn Ragnheiðar. „Um leið og þú ert kominn með strikamerki þá getur þú bara komið,“ sagði hún.
50-60 manns munu vinna við bólusetningarnar í Laugardalshöll. Þetta er starfsfólk frá heilsugæslunni, lögreglunni og Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.