„Núverandi borgarstjórnarmeirihluti unir sér vel í bergmálshelli og á þar innihaldsríkt samtal við sjálfan sig. Allir virðast sammála og í slíku hóplyndi er auðvitað engin þörf á jarðsambandi við borgarbúa varðandi meðferð á fjármunum þeirra.“
Svona hefst pistill sem Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, skrifar en pistillinn var birtur í Morgunblaðinu í dag. Í pistlinum fer Kolbrún yfir stafræn verkefni borgarinnar og peninginn sem borgin hefur eytt í þau. Hún segir að verið sé að leika með fjármuni almennings.
„Til dæmis er óviðunandi að horfa upp á hvernig þjónustu- og nýsköpunarsvið Reykjavíkurborgar (ÞON) hefur farið með peninga borgarbúa í þeim stafrænu verkefnum sem borgin vill koma á laggirnar. Margar þessara stafrænu lausna, sem flestar eru enn í vinnslu, eru auk þess ekki bráðnauðsynlegar og hefðu getað beðið betri tíma. Dæmi um slík verkefni eru rauntímatölur sundlaugagesta og ferlateikningakerfi.“
Kolbrún segir að þessi stafræna umbreytingarvinna hafi staðið yfir í mörg ár en sé samt „illa skilgreind“ og „ómarkviss“. Hún segir „ævintýralega háar upphæðir“ hafa farið í verkefnið og að ekki sé búið að réttlæta eyðsluna með ávinningi. „Tugir eða hundruð milljóna eru flogin út um gluggann, meðal annars í óskilgreinda ráðgjöf frá erlendum og innlendum fyrirtækjum. Og enn stefnir í gríðarlega eyðslu. Á árinu 2022 eru útgjöld ÞON ætluð 4,5 milljarðar króna en tekjur 1,5 milljarðar króna,“ segir hún í pistlinum.
Kolbrún segir að stafræn umbreyting sé nauðsynleg en að það skipti máli hvaða leiðir séu farnar. „ÞON virðist hafa leiðst út í stefnulausa þenslu. Ráðnir hafa verið sérfræðingar í óskilgreinda tilraunastarfsemi í stað þess að nýta þær lausnir sem fyrir hendi eru. Til dæmis hefði verið eðlilegt að leita strax í upphafi til Stafræns Íslands eftir samvinnu. Flestar þessar stafrænu snjalllausnir eru þegar komnar í virkni annars staðar og því óþarfi að finna hjólið upp á nýtt!“ segir hún.
„Ýmsu háfleygu er fleygt fram svo sem að „verkefnið leiði borgina inn í stafræna framtíð og sé af þeirri stærðargráðu sem eigi sér fáar hliðstæður hér á landi“. En raunveruleikinn beinir sjónum okkar annað. Fleiri en ég hafa stigið fram og gert athugasemdir við aðferðafræði ÞON, þar á meðal Samtök iðnaðarins og Stafrænt Ísland, sem býður upp á samvinnu og samstarf um fjölmargar rafrænar lausnir eins og Mínar síður sem og boð um að Reykjavíkurborg komi inn í tilboð vegna hugbúnaðarleyfa Microsoft á vegum Ríkiskaupa.“
Undir lok pistilsins vekur Kolbrún athygli á því að 10 milljarða kostnaður við stafræna umbreytingu á stjórnsýslu borgarinnar er eignfærður í stað þess að færast beint á rekstrarreikning.
„Margt af hinni stafrænu umbreytingu snýst ósköp einfaldlega um að innleiða ný vinnubrögð. Benda má á að almennt er farið mjög varlega í að eignfæra tölvubúnað vegna þess hve hratt þarf að endurnýja búnaðinn. Hann er víðast hvar metinn sem rekstrarkostnaður og færður til gjalda á viðkomandi ári. Ég hef því óskað eftir því að reikningsskila- og upplýsinganefnd samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins skoði þetta mál,“ segir hún.
Þá segir Kolbrún að á morgun, þriðjudaginn 16. nóvember, muni hún leggja fram tillögu um að borgarstjórn samþykki að gera breytingar á skipuriti og innra skipulagi þjónustu- og nýsköpunarsviðs Reykjavíkur. Hægt verður að skoða tillöguna ásamt greinargerð á heimasíðu Kolbrúnar.