Evrópska smitsjúkdómastofnunin, European Centre for Disease Prevention and Control, segir að þróun heimsfaraldurs kórónuveirunnar hér á landi sé „mikið áhyggjuefni“ þessa dagana. Þetta kemur fram í vikulegri stöðuskýrslu stofnunarinnar um þróun faraldursins í Evrópu að undanförnu. Stofnunin gerir ráð fyrir aukningu smita og dauðsfalla næstu tvær vikur í Evrópu.
10 lönd eru í flokki sem stofnunin telur ástæðu til að hafa „mjög miklar áhyggjur“ af. Þetta eru Belgía, Búlgaría, Eistland, Grikkland, Holland, Króatía, Tékkland, Ungverjaland, Pólland og Slóvenía.
Í næst efsta áhættuflokki, lönd sem eru „mikið áhyggjuefni“ eru: Ísland, Danmörk, Finnland, Noregur, Þýskaland, Austurríki, Írland, Lettland, Liechtenstein, Litháen, Lúxemborg, Rúmenía og Slóvakía.
Af þremur löndum hefur stofnunin hóflegar áhyggjur af en það eru Kýpur, Frakkland og Portúgal. Litlar áhyggjur þarf að hafa af stöðu mála á Ítalíu, Möltu, Spáni og Svíþjóð að mati stofnunarinnar.
Í stöðuskýrslunni kemur fram að það einkenni þróun faraldursins að smitum fari fjölgandi og að dánartíðnin sé lág en fari hækkandi.
Í heildina hækkaði hlutfall nýrra smita í álfunni úr 316,4 í 383,9 á milli vikna eða rúmlega 21% aukning. Þetta var fimmta vikan í röð sem hlutfallið hækkaði. Hlutfallið er hæst í Slóveníu eða 1.749,9 smit á hverja 100.000 íbúa.
Dánartíðnin hefur einnig farið hækkandi um alla álfuna síðustu fimm vikur og var komin í 35,5 á hverja milljón íbúa í lok síðustu viku en var 32,3 vikuna á undan. Dánartíðnin er hæst í Rúmeníu, Búlgaríu og Lettlandi en þar er hún tæplega 10 sinnum hærri en meðaltalið á Evrópska efnahagssvæðinu. Rúmenía og Búlgaría eru á botninum í Evrópu hvað varðar fjölda bólusettra.