Áhrifavaldurinn og aktívistinn Edda Falak vakti mikla athygli nýlega er hún hvatti landsmenn til að nýta veikindadaga sína ekki bara þegar um líkamleg veikindi er að ræða, heldur einnig til að huga að andlegri heilsu.
Það mætti segja að ummælin hafi skipað fólki í fylkingar, annars vegar þau sem benda á að veikindadagar séu neyðarúrræði og ætti aðeins að nýta ef um raunveruleg veikindi sé að ræða og svo þau sem benda á að oft sé betra að byrgja brunninn áður en maður fellur ofan í hann. Svo voru þau sem sökuðu Eddu um að aumingjavæða þjóðina.
Þá er maður bara búin að aumingjavæða alla þjóðina fyrir kvöldmat
— Edda Falak (@eddafalak) November 13, 2021
Anna Kristjánsdóttir, vélstjóri á eftirlaunum, hefur síðustu ár búið úti á Tenerife. Hún tók eftir umræðunni um veikindadaganna í gær og hefur deilt pistli um málið á Facebook síðu sinni.
Hún bjó á árum áður í Svíþjóð og segir að þar hafi margir nýtt sér það óspart að á þeim tíma þurfti ekki að skila læknisvottorði fyrir fyrstu viku veikinda.
„Fyrstu árin sem ég bjó í Svíþjóð var ástandið sagt þannig að ef fyrirtæki vantaði fjóra starfsmenn voru fimm ráðnir, sá fimmti til að fylla í skarðið fyrir veikindaforföllin sem voru veruleg á þessum tíma. Ástæða þessa var hin mjög svo frjálslynda stefna Svía í veikindaréttinum þar sem ekki þurfti að skila inn læknisvottorði fyrstu vikuna í veikindaleyfi og margir nýttu sér þetta óspart.“
Yfirvöld ákváðu loks að grípa inn í stöðuna með því að koma á svokölluðum karensdegi, en það fól í sér að fyrsti dagur veikinda var gerður launalaus.
„Að lokum var innleiddur svokallaður karensdagur sem innibar að fyrsti dagur í veikindaleyfi var launalaus. Þetta varð að sjálfsögðu til þess veikindadögum snarfækkaði.“
Anna bendir á að með þessu inngripi hafi í reynd þeim sem raunverulega voru veikir verið refsað fyrir hátterni þeirra sem nýttu veikindaga að tilefnislausu.
„Þar með voru þeir starfsmenn sem voru raunverulega veikir farnir að gjalda fyrir aumingjana sem voru að svíkjast um í vinnunni með því að skrá sig veika. Ekki veit ég hvernig þetta er í dag í Svíþjóð og þarf ekkert að vita það enda löngu hætt á vinnumarkaði.“
Hér á íslandi hafi Anna upplifað annað. Lítið var um veikindi á deild Önnu hjá Orkuveitunni og telur Anna að hún sjálf og flestir vinnufélagar hennar frá þeim tíma geti talið veikindadaga sína á fingrum beggja handa.
„Á Íslandi mátti sjá verulegan mun á milli starfsgreina þegar um veikindi var að ræða. Þannig var mjög lítið um minniháttar veikindi hjá deildinni minni hjá Orkuveitunni þó að alvarlegum veikindum og slysum frátöldum enda mörg okkar gamlir sjóhundar. Þó ætla ég ekki að halda því fram að ég geti talið samanlagða veikindadaga mína á 21. öldinni á fingrum annarrar handar, en mjög líklega á fingrum beggja handa og svipað meðal flestra vinnufélaga minna.“
Anna veltir því fyrir sér umræðunni hér á Íslandi og óttast að ef fólk fari að nýta veikindadaga í auknum mæli vegna þreytu, þá komi það til með að bitna á öðrum á vinnustaðnum.
„Nú heyri ég að ungt fólk á Íslandi sé farið að boða aukin veikindaforföll án þess að um veikindi sé að ræða. Þetta hryggir mig fyrir hönd þeirra sem þurfa að gjalda þessa.“
Skiptar skoðanir hafa verið á ummælum Eddu. Margir hafa bent á að í dag hafi margir þurft að hverfa frá vinnumarkaðinum í lengri og skemmri tíma vegna örmögnunar og kulnunar. Þetta sé hægt að fyrirbyggja með því að hugsa betur um sig, svo sem með því að taka veikindadaga þegar álag eða þreyta er orðin of mikil.
Aðrir hafa bent á að þegar starfsmenn nýta veikindadag þá þurfi samt væntanlega að leysa starf þeirra af hendi. Þurfi þá yfirmenn að redda afleysingu á vakt eða samstarfsmenn að leggja meira á sig til að ljúka verkefnum dagsins. Eins með því að taka út veikindadaga jafnt og þétt þá safnist þeir ekki upp og það geti reynst afdrifaríkt ef fólk veikist alvarlega eða lendi í slysi.