Þau mættust stálin stinn í Sprengisandi á Bylgjunni í dag þegar Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður, mætti Hönnu Björgu Vilhjálmsdóttur, kennara, til að rökræða um seinni metoo-bylgjuna sem hefur verið áberandi í samfélaginu upp á síðkastið og stöðu kynferðisbrota í samfélaginu.
Hanna Björg benti á að þolendur hafi í gegnum árin verið jaðarsettir og það sé furðulegt hvernig samfélagið geri strangari kröfur til þolenda kynferðisofbeldis heldur en til þolenda annars konar ofbeldis.
„Núna er óþolið orðið bara algjört og nú er kominn vettvangur – samfélagsmiðlar eru auðvitað vettvangur – bæði fyrir þolendur að snúa bökum saman og mynda samtakamátt og að láta í sér heyra og hafa hátt og krefjast réttlætis.“
Hanna segir að nú þegar þolendur láti í sér heima þá virðist það vera sem svo á hluti samfélagsins sé tilbúinn að leggja ýmislegt á sig til að þagga niður í þeim.
„Þá koma menn eins og Sigurður og reyna að reka þá aftur niður í myrkrið og holuna og þjáninguna. En Sigurði mun auðvitað ekki takast það.“
Sigurður neitar því að vera að reyna að þagga niður í þolendum. Hann vill þó að mál séu rekin fyrir dómstólum en ekki á samfélagsmiðlum. Það sé svo verkefni samfélagsins að reyna að binda endi á ofbeldi.
„En það verður væntanlega aldrei gert, þú getur aldrei held ég búið til góðar manneskjur úr öllu fólki og alls kyns aðstæður koma upp sem gera það að verkum að það verður til ofbeldi.“
Veltir Sigurður fyrir sér hvort hægt sé að leita annara leiða en nú standa til boða til að leysa úr kynferðisbrotamálum. Til dæmis með sálfræðingum sem setjist niður með þolanda og geranda líkt og á sér stað í forræðisdeilum.
Við þetta hló Hanna Björg. „Þetta er svo mikið þvaður eitthvað í manninum að ég bara á ekki til orð.“
Hanna bendir á að Sigurður sjálfur hafi reynt að þagga niður í þolendum, nú síðasta þegar hann birti hluta úr lögregluskýrslu í máli Þórhildar Gyðu Arnardóttur gegn knattspyrnumanninum Kolbeini Sigþórssyni.
„Sigurður stendur og stóð bara fyrir herferð gegn þolanda kynferðisofbeldis þannig að lýsa sig einhvern veginn saklausan af því er náttúrlega bara algjörlega fráleitt. Hann er margbúinn að reyna að tæta Þórhildi Gyðu og rífa af henni mannorðið og guð veit hvað. Vísa í persónuleg gögn og hann er með málsókn yfir sér maðurinn hjá lögreglu og persónuverndaryfirvöldum fyrir að hafa brotið trúnað. Maðurinn kallar sig lögmann. Ég er bara orðlaus.“
Sigurður hafi líka nýlega birt lista á Facebook. með nöfnum kvenna sem hafa barist gegn kynferðisofbeldi.
„Ætlar hann í alvöru að sitja þarna og segja að hann sé ekki að beita sér gegn því að þolendur kynferðiofbeldis fái réttlæti? Sko hann brýtur lög til þess.“
Við þessu benti Sigurður á að hann hafi heyrt af því að búið sé að kæra hann, en sjálfur hafi hann enga kæru fengið að sjá og ekki verið boðaður í skýrslutöku.
„Ég er búinn að fylgja mjög vel með þessum samtökum eins og Bleika fílnum, Öfgum og Aktívisma gegn nauðgunarmenningu. Og búinn að skoða mjög vel markmiðið. Þegar þú stofnar samtök sem eru að berjast gegn feðraveldinu. Hvað er feðraveldi? Hvað er nauðgunarmenning? Það er enginn vandi að vera með upphrópanir og kalla mig lygara og lögbrjót og allt það. En ég hef ekki fengið neina málefnalega umræðu um það sem ég hef verið að segja.“
Sigurður segir að baráttuhópar standi fyrir því að „hvísla“ út sögur um nafngreinda menn með það fyrir augunum að taka þá af lífi án dóms og laga.
„En þú mátt ekki búa til sögur um fólk eins og var bara ákveðið – tökum bara dæmi – það er ákveðið að fara gegn einhverjum manni, eins og bara Gillzenegger árið 2015. Þá var bara samið bréf og það á bara að senda það út og taka hann af lífi. Þegar hann birtist í bíómynd og það var viðtal við einn af leikurunum í bíómyndinni hjá Gísla Marteini – þá verður allt brjálað. Þegar Þóra Arnórsdóttir talar við einhvern mann sem hafði sent myndir af typpinu sínu til einhverrar konu þá má ekki tala við hann. Þannig þetta eru þessir öfgar sem eru í þessari umræðu. Það er aldrei hægt að eiga neina málefnalega umræðu og það má aldrei horfa á grunnreglurnar.“
Þarna fór Hanna aftur að hlæja.
„Fyrirgefðu Sigurður en ég get ekki annað en hlegið að þér. Að Sigurður ætli að fara að segja konum hvað þær megi tala um á lokuðum síðum – þetta er náttúrulega svo mikil firra.“
Hanna ákvað að útskýra þessi hugtök sem Sigurður nefndi fyrir honum, en benti honum þó á að hann hefði líka getað slegið þeim inn í leitina á Google og kynnt sér skilgreiningarnar.
„Nauðgunarmenning er menning sem að kvíslast um allt samfélagið þar sem lítið er gert úr þolendum og þeirra upplifunum og þeirra brotum og þeir fá ekki réttlæti fyrir dómstólum eins og þú bendir á og það er kóað með gerendum út í eitt. Það er nauðgunarmenning. Það að smætta ofbeldi og kenna þolandanum um það.“
Svo er það feðraveldið.
„Feðraveldið Sigurður það er samfélag þar sem karlar hafa yfirráð yfir konum svona á heildina séð bara svona til þess að upplýsa þig aðeins. Þú ert náttúrulega alveg ótrúlega illa að þér svona yfir höfuð. Myndi ég segja. Að þú sért að fjalla um þessi mál og þú veist ekki einu sinni skilgreininguna á hugtökum sem er mjög einfalt að google–a. Þetta er kannski það fyrsta en að sitja svona þarna í einhverju forréttindasæti og ætla að segja konum hvernig þær eiga að tala saman, ég meina ég á engin orð.“
Hanna segir að karlmenn eins og Sigurður óttist það að missa forréttindi sín og því gangi þeir svona fram í umræðunni. Þegar konur séu komnar inn á staði sem áður voru karlægir þá séu þær kallaðar frekjur með yfirgang af forréttinda karlmönnum sem óttist stöðu sína.
„Þeir eru að nota þetta til að gera lítið ur umræðunni og svo taka þeir upp eitthvað svona – að taka menn af lífi – það er ekki verið að taka neinn af lífi.“
Sigurður segist ekki vera forréttindakall og segist ekkert pirra sig á því að samtök á borð við Öfgar og Bleika fílinn kalli hann gerendameðvirkan. Hann sé meðvitaður um að það þurfi að gera úrbætur í ofbeldismálum en minnir á það að bæði konur og karlar geti verið gerendur í slíkum málum sem og þolendur.
Sigurður minnir á að við búum í réttarríki og að fólk á samfélagsmiðlum og í baráttuhópum geti ekki tekið upp á því að gerast dómarar og úthluta refsingum í svona málum. Staðan sé orðin sú að það dugi ekki einu sinni fyrir meinta gerendur að vera sýknaðir fyrir dómstólum – áfram sé þess krafist að þeir fái hvergi vinnu og sé útskúfað úr samfélaginu.
Nefndi hann í því samhengi knattspyrnumanninn Kolbein Sigþórsson – sem samdi um að greiða þolendum sínum bætur til að ljúka máli árið 2017, og svo Egil Einarsson, Gillzenegger, sem var kærður fyrir kynferðisbrot í tvígang en bæði mál voru felld niður þar sem þau þóttu ekki líkleg til sakfellingar. Engu að síður séu baráttuhópar enn að krefjast þess að þeim sé útskúfað úr samfélaginu.
Sigurður nefndi enn fremur að hann væri ekki sannfærður um að allar sögur sem hafa birst í tengslum við #metoo-hreyfinguna feli í sér lögbrot. Nefndi hann sem dæmi frásagnir kvenna í réttarvörslukerfinu sem birtar voru árið 2017.
„Þetta eru nú ekki merkilegar frásagnir sem er verið að segja frá.“
Sigurður bendir á þó að Íslendingar búi við tjáningarfrelsi þá sé engu að síður refsivert að vera með aðdróttanir um að menn hafi gerst sekir um refsiverða háttsemi ef ekki er búið að sakfella þá fyrir þær sakir.
Hanna tók undir með Sigurði að það sé mikilvægt að búa við réttarríki. En staðan sé sú að þolendur búi ekki við slíkt.
„Hvar er þá réttarríkið fyrir þolendur“
Hanna segir að Sigurður spili sig sem hluta af lausninni, en með skrifum sínum hafi hann skaðað baráttu gegn kynferðisbrotum og með því sé hann því hluti af vandanum, ekki lausninni.