Mikill erill var hjá lögreglu í gærkvöld og nótt. Var mikið um hávaðakvartanir og náði lögregla ekki að sinna þeim öllum vegna anna.
Frá þessu greinir í dagbók lögreglu en í færslum fyrir kvöldið og nóttina ber töluvert á ofbeldismálum.
Rán var framið í verslun í hverfi 105 í Reykjavík og náði maðurinn að hafa á brott með sér peninga er hann hljóp úr úr versluninni. Málið er í rannsókn.
Slagsmál brutust út á milli manna í Garðabæ sem enduðu með því að tveir mennirnir hlutu stungusár. Voru tveir handteknir vegna málsins og vistaðir í fangaklefa. Mennirnir sem hlutu stungusár voru fluttir á bráðamóttökuna með sjúkrabíl. Þeir eru ekki lífshættulega slasaðir. Málið er í rannsókn.
Maður í annarlegu ástandi var handtekinn í Kópavogi vegna eignaspjalla. Þegar lögregla var að flytja manninn í fangaklefa réðst hann á lögreglumann og skallaði hann í andlitið ásamt því að hóta lögreglumönnum og fjölskyldum þeirra lífláti. Maðurinn var vistaður í fangaklefa.
Maður var handteknin í Grafarvogi eftir að hafa ráðist á mann og rotað hann. Þegar lögregla var að ræða við manninn réðst hann á lögreglumann og kýldi hann í andlitið. Var maðurinn vistaður í fangaklefa.