fbpx
Laugardagur 25.janúar 2025
Fréttir

Þetta er #metoo sagan sem sögð er fjalla um fráfarandi yfirlögfræðing Landsvirkjunar – „Gerðu lítið úr henni, sögðu hana athyglissjúka og ljúga“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Laugardaginn 13. nóvember 2021 19:16

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lögmaðurinn Telma Halldórsdóttir birti í dag færslu á Facebook þar sem hún rifjar upp frásögn sem hún ritaði í fyrstu bylgju hreyfingarinnar #metoo um bestu vinkonu sína sem lenti í alvarlegri kynferðislegri áreitni á vinnustað. Þar greinir hún frá því að fjölmiðlar hafi í vikunni fjallað um sama mann sem hafi nú rúmlega 20 árum síðar gerst sekur um brot gegn annarri konu á vinnustað. Samkvæmt heimildum DV er umræddur maður Helgi Jóhannesson, fyrrum yfirlögfræðingur Landsvirkjunar, en í vikunni var greint frá því að hann hafi samið um starfslok í kjölfar þess að áreita kvenkyns starfsmann. 

Telma skrifar:

„Fyrir nokkrum árum í fyrstu me too bylgju ritaði ég nokkur orð um alvarlegt kynferðislegt áreiti sem besta vinkona mín varð fyrir við störf á lögmannsstofu um aldamótin. Hún kvaddi þennan heim allt of ung og gat því ekki sagt sögu sína sjálf. Var frásögnin birt á síðu kvenna sem starfa eða hafa starfað innan réttarvörslukerfisins og var saga hennar jafnframt lesin upp í Borgarleikhúsinu.“

Telma deilir svo sögu vinkonu sinnar:

„Ung kona, hæfileikarík og metnaðarfull, nýútskrifuð úr laganámi, ræður sig til starfa hjá stórri lögmannsstofu í Reykjavík. Starfsmaður á stofunni áreitir hana ítrekað kynferðislega og gengur mjög langt í þeim efnum. Hún reyndi að höndla, vera töff og vera ein af strákunum fyrst um sinn, en alltaf gekk þetta lengra og lengra.

Ég fékk sjálf sjokk þegar þessi maður stakk tungunni upp í eyrað á henni og greip í brjóstin á henni fyrir framan mig, allt samt svona „djók“. Hún fékk loksins nóg þegar hann skellti henni á skrifborðið hjá sér og ætlaðist til þess að hún svæfi hjá sér. Hennar viðbrögð fyrir utan sjokkið var að tala við sinn yfirmann sem var kona og greina frá áreitninni.

Nokkru seinna var hún kölluð inn á fund nokkurra eigenda þar sem henni var sagt upp störfum. En ekki leið á löngu þar til svipaðar sögur heyrðust af sama manni og öðrum starfsmönnum af stofunni. Það sem var hvað sárast í þessu öllu var að karlmenn úr stéttinni, menn sem við höfðum talið vini okkar, gerðu lítið úr henni, sögðu hana athyglissjúka og ljúga og því miður voru það ekki bara menn því þó nokkrar konur sögðu það sama.” 

Frásögn Telmu fylgdi svo brot úr minningargrein sem önnur kona skrifaði um sameiginlega vinkonu þeirra Telmu:

„Það fór að halla mjög undan fæti hjá konunni fljótlega eftir þetta og hún byrjar í óreglu og berst við kvíða og þunglyndi. Konan lést ung að aldri og það er sláandi að lesa eftirfarandi úr minningargrein um hana:

„Kannski lagðir þú of mikið á þig, því að loknu lögfræðináminu fór að halla undan fæti og því fór sem fór.“

Telma segir að eftir að fréttir bárust í vikunni um aðdraganda starfsloka Helga hafi margir sett sig í samband við hana og hafi hugsað til vinkonu hennar. Því hafi Telma ákveðið að deila sögu vinkonu sinnar aftur, undir nafni, til að skila skömminni fyrir hennar hönd.

„Í fjölmiðlun í þessari viku var fjallað um sama mann og að hann hafi nú rúmlega 20 árum síðar gerst sekur um brot gegn konu á vinnustað. Ég hef fengið mikið af skilaboðum og símtölum vegna þessa frá vinum sem var annt um hana. Á meðan ég er sorgmædd yfir því að þessi kona hafi lent í slíkri áreitni er það hið minnsta nokkur huggun að afleiðingar virðast farnar að fylgja gjörðum. Elsku Kristín, mikið vildi ég að tímarnir hefðu verið öðruvísi í kringum aldamótin og að örlög þín hefðu orðið önnur. Ég birti hins vegar sögu þína nú undir nafni og er það mín leið til þess að skila skömminni fyrir þig. Elska þig, alltaf.“

Telma nafngreinir ekki geranda vinkonu sinnar í færslunni en eins og áður kemur fram hefur DV öruggar heimildir fyrir því að umræddur maður sé Helgi Jóhannesson, fyrrum yfirlögfræðingur Landsvirkjunar. DV hefur einnig heimildir fyrir því að vinnustaðurinn þar sem vinkona Telmu var áreitt sé lögmannsstofan LEX og hefur meðal annars rætt við fyrrverandi starfsmann stofunnar sem staðfestir söguna. Helgi starfaði á LEX í rúmlega 30 ár sem lögmaður og sem meðeigandi, eða frá árinu 1988 fram til ársins 2019 er hann tók við starfi yfirlögfræðings hjá Landsvirkjun.

Landsvirkjun staðfesti í samtali við DV í október lok að Helgi hefði samið um starfslok en vísuðu í trúnaðarskyldu þegar falast var eftir því hvers vegna hann væri að hætta eftir aðeins rétt rúm tvö ár í starfi. Stundin greindi svo frá því á fimmtudaginn að Helgi hafi látið af störfum í kjölfar þess að kona kvartaði undan hegðun hans en meðal annars hafi hann beint til hennar óviðeigandi orðum, strokið henni án samþykkis og boðið henni að klípa sig í rassinn.

Konur sem starfað höfðu innan réttarvörslukerfisins sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu í desember 2017 með yfirskriftinni „Þögnin rofin“. 156 konur skrifuðu undir yfirlýsinguna sem Vísir birti og fylgdu henni 45 reynslusögur. Saga vinkonu Telmu er númer 20. Í yfirlýsingunni kröfðust konur innan réttarvörslukerfisins þess að vinnuveitendur tækju ábyrgð á að uppræta vandamálið og að hlustað væri á konur.

DV hefur ítrekað reynt að ná í Helga við vinnslu fréttarinnar, sent honum tölvupóst, sms og hringt, en hann hefur engu svarað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“
Fréttir
Í gær

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum