Héraðssaksóknari ákærði á dögunum karlmann fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás frá því 2019, en maðurinn er sagður hafa kastað glerglasi í andlit fórnarlambs síns seint á fimmtudagskvöldi á skemmtistaðnum Enska barnum við Austurstræti í miðborg Reykjavíkur.
Glasið brotnaði á andliti fórnarlambs glerkastsins sem hlaut 7-8 sentimetra langan skurð vinstra megin á enni af völdum árásarinnar.
Saksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og að greiða allan sakarkostnað, en ekki er að sjá af ákærunni að brotaþoli geri neina kröfu um bætur í málinu. Þó er ekki loku fyrir því skotið að gerð verði krafa um greiðslu bóta síðar, og þá með höfðun einkamáls.
Málið verður þingfest 1. desember næstkomandi í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Allt að þriggja ára fangelsi liggur við brotunum sem maðurinn er ákærður fyrir. Ef „stórfellt líkams- eða heilsutjón“ hlýst af árás, má þó dæma mann í allt að 16 ára fangelsi.