Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hefur í samræmi við tillögur Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnarlæknis, hert sóttvarnaaðgerðir til muna til að sporna við hraðri útbreiðslu COVID-19 á Íslandi. Aðgerðirnar taka gildi á miðnætti.
Helstu breytingar eru þær að almennar fjöldatakmarkanir verða 50 manns, sem fela í sér að óheimilt er að fleiri en 50 komi saman, alveg sama hvort um sé að ræða vettvang innan- eða utandyra í opinberum rýmum eða í einkarýmum. Börn fædd 2016 eða síðar teljast ekki með.
Nálægðarmörk verða 1 metri milli ótengdra aðila og ef ekki er hægt að tryggja það þá ber að nota grímu. Þrátt fyrir það mega íþróttir með snertingu áfram eiga sér tað hjá börnum og fullorðnum og leikskólabörn sem og nemendur í 1-4. bekk í grunnskóla eru undanþegin eins metra reglu.
Fjölmennir viðburðir fyrir allt að 500 manns í hverju sóttvarnahólfi verða áfram heimilir með notkun hraðprófa. Allir fæddir 2015 og fyrr verða að framvísa neikvæðri niðurstöðu úr hraðprófi sem ekki má vera eldra en 48 klst. Ef ekki er hægt að tryggja 1 metra á milli gesta skal bera grímu, nema um sé að ræða börn fædd 2006 eða síðar. Skylt er að skrá gesti í föstum sætum með nafni, kennitölu og símanúmeri og óheimilt er að selja veitingar í hléi. Undanþága frá 1 metra reglu og grímuskyldu er veitt skólaskemmtunum með hraðprófum í grunn- og framhaldsskólum.
Sund-, baðstaðir, líkamsræktarstöðvar og skíðasvæði mega taka á móti 75% af leyfilegum hámarksfjölda gesta samkvæmt starfsleyfi. Börn fædd 2016 eða síðar teljast ekki með.
Veitingastaðir þar sem selt er áfengi skulu loka klukkan 23:00 og ekki hleypa inn nýjum gestum eftir 22:00. Gestir skulu vera farnir á slaginu 23:00. Vínveitingar skulu aðeins bornar fram til sitjandi gesta og skylt er að halda skrá yfir gesti.
Einkasamkvæmi á stöðum með vínveitingaleyfi eru bönnuð eftir klukkan 23:00.
Í verslunum og söfnum gilda almennar reglur um 50 manna fjöldatamörk, eins metra reglu og grímuskyldu. Heimilt er að taka á móti fimm viðskiptavinum til viðbótar á hverja 10 fermetra en þó aldrei með fleirum en 500 að hámarki.
50 manna takmörkin gilda einnig í skólastarfi fyrir börn fædd 2015 og fyrr. Börn fædd 2006 og síðar eru undanþegin grímuskyldu. Nemendum og kennurum í framhaldsskólum er heimilt að taka niður grímu eftir að sest er niður inni í skólastofu og blöndun hópa í skólastarfi er heimil á öllum skólastigum.