Sigrún Hrólfsdóttir, fyrrum deildarforseti myndlistadeildar Listaháskóla Íslands, segir að brotið hafi verið á henni í ráðningarferli hjá Listaháskóla Íslands á þessu ári og vandar Fríðu Björk Ingvarsdóttir, rektor LHÍ, ekki kveðjurnar. Þetta kemur fram í bréfi sem Sigrún birtir á Facebook-hópnum Menningarátökin sem hún hvetur áhugasama um starfsemi og stjórnsýslu skólans að kynna sér.
birti bréf á Facebook-hópnum Menningarátökin þar sem hún greinir frá því að brotið hafi verið gegn henni í ráðningarferli þegar henni var ekki boðin áframhaldandi starf við skólann. Sigrún segir farir sínar ekki sléttar við rektor LHÍ, Fríðu Björk Ingvarsdóttur. Fréttablaðið greindi fyrst frá.
„Undirrituð gegndi stöðu deildarforseta myndlistardeildar Listaháskóla Íslands með ráðningarsamningi til fimm ára eða í eitt tímabil (2016-2021). Þremur mánuðum áður en ráðningarsamningur minn rann út var mér tilkynnt af rektor, Fríðu B. Ingvarsdóttur, að staðan yrði auglýst laus til umsóknar sem var gert vorið 2021. Þetta kom mér og flestum sem málið varða í opna skjöldu enda kveða reglur Listaháskólans á um heimild til að endurráða deildarforseta í annað tímabil án auglýsingar,“ skrifar Sigrún.
Hún segist hafa óskað eftir frekari skýringum og það hafi starfsmenn deildarinnar líka gert. Þá hafi allir akademískir starfsmenn myndlistardeildar skrifað bréf þar sem þessum vinnubrögðum var mótmælt á þeim forsendum að þetta væri ekki deildinni í hag. Segir Sigrún að rektor hafi ákveðið þetta út frá þeim formlegu forsendum að skipuritsbreyting hafði átt sér stað hjá LHÍ ári áður. Hún segir ennfremu að í svari stjórnarformanns LHÍ, Magnúsar Ragnarssonar framkvæmdastjóra Símans, til bæði hennar og starfsmanna myndlistardeildar komi einnig fram að þessi ákvörðun ekkert með með hana eða hennar störf að gera, en hún væri hvött til þess að sækja um aftur.
„Ég sótti um starfið en var þó ekki boðin staðan áfram, þrátt fyrir að vera eini umsækjandinn sem metinn var hæfur. Samkvæmt niðurstöðu hæfisnefndar er ég ótvírætt hæf til þess að gegna stöðu prófessors í myndlist, auk þess sem ég hef gegnt starfinu í fimm ár og hafði stuðning akademískra starfsmanna deildarinnar. Ákvörðunin er því tekin eftir atvinnuviðtal þar sem voru rektor, sviðsforseti og einn utanaðkomandi aðili af fagsviði myndlistar (þó ekki myndlistarmaður). En það er ljóst að þessi aðili hefur ekki nægt vægi gagnvart tveimur yfirmönnum LHÍ,“ skrifar Sigrún.
Þá heldur hún því fram að Fríða Björk hafi ekki boðið henni áframhaldandi starf því Sigrún hafi gagnrýnt stefnu hennar í tveimur málum sem höfðu bein áhrif á faglega, listræna og akademíska starfsemi myndlistardeildar.
„Einnig var hún ósátt með að ég hafði sýnt starfsfólki skólans stuðning þegar að þau þurftu að taka nokkuð harðan slag við stjórnendur LHÍ í tengslum við styttingu vinnuvikunnar. Ég hafði þó unnið samkvæmt öllum ferlum skólans og átt í góðu samstarfi við nemendur og starfsfólk og alla þá lista- og fræðimenn sem að koma að stundakennslu við deildina. Þegar ég óskaði eftir skriflegum rökstuðningi fyrir þessari ákvörðun, á grundvelli stjórnsýslulaga, var því hafnað,“ skrifar Sigrún.
Þá segir hún að Fríða Björk segi starfsfólki skólans, sem spurt hafi um málið, að um trúnaðarmál sé að ræða.
„Staðan var auglýst á ný og aftur sótti ég um. Niðurstaða þess ráðningarferlis var að ráðinn var minna hæfur aðili, hvort sem litið er til menntunar, listræns ferils eða starfsreynslu skv. hæfisnefnd skólans. Að öðru leyti frábær náungi og óska ég honum einlæglega alls hins besta.“
Sigrún segir að með þessari ákvörðun og ráðningarferlunum sem hófust í kjölfarið hafi verið farið gegn mati hæfisnefndar og vilja akademískra starfsmanna við myndlistardeild LHÍ. „Hér er auk þess vegið að mér bæði persónulega og faglega,“ segir hún.
„Þessi málsmeðferð er til þess fallin að rýra gildi allra akademískra ráðninga við Listaháskóla Íslands, þar sem það er nú ljóst að geðþótti yfirmannsins ræður, sem beitir faglegum ferlum skólans til þess að bola burt hæfum starfsmanni. Tekið er fram í starfslýsingu að deildarforsetar beri ábyrgð á listrænni og akademískri stefnumótun fagsviða og útfærslu hennar í námi, kennslu og rannsóknum.“
Eftir það segir Sigrún að það sé ljóst af þessu máli að þeir sem gagnrýna stefnu rektors megi búast við því að fá ekki ráðningu við skólann. „Það er mjög alvarlegt að starfmenn við Listaháskólann geti ekki tjáð skoðanir sínar án þess að óttast um stöðu sína. Lögmaður BHM sendi bréf til rektors og stjórnar Listaháskólans þar sem bent var á þetta. Í svari lögmanns skólans kom fram að ráðningar starfsfólks skólans væru einkaréttarlegs eðlis því að rekstrarform skólans sé sjálfseignarstofnun. Og á þeim grunni væri því hafnað að veita rökstuðning eða nokkrar frekari skýringar í málinu,“ segir hún.
„Listaháskóli Íslands er á framfæri ríkisins og þáði á árinu 2020 rúmlega 1.4 milljarða króna úr ríkissjóði og flokkast sem ríkisaðili í A-hluta ríkisreiknings. Þetta má sjá á ársreikningum skólans. Í reglum Listaháskóla Íslands um veitingu akademískra starfa, er kveðið á um að skólinn fari að lögum um opinbera háskóla nr. 63/2006 og sitja tveir fulltrúar Mennta- og menningarmálaráðuneytisins í stjórn skólans. Þrír fulltrúar í stjórn eru skipaðir af félagi sem nefnist Bakland en þetta félag virðist ekki vera mjög aktíft. Ég hef reynt að ganga í þetta félag en það hefur ekki gengið.“
Að lokum segir Sigrún að það sé óeðlilegt að stofnun sem þessi geti falið sig á bakvið það að vera ekki opinber stofnun þar sem stofnunin þiggur stórar fjárhæðir af opinberu fé til reksturs. Hún segir að vegna þessa þurfi stofnunin ekki að lúta lögum og reglum sem gilda um hið opinbera.
„Og þurfa auk þess ekki heldur að fylgja eigin reglum og lögum nema þegar það hentar. Ég birti þetta hér vegna þess að ég ber hag skólans fyrir brjósti og tel að öll umræða um LHÍ sé til bóta.“
Uppfært 12. nóvember. Rektor Listaháskóla Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins. Hana má lesa hér að neðan.
„Framkvæmdaráð Listaháskóla Íslands ákvað einróma vorið 2020, eftir langt og strangt samráðs- og undirbúningsferli að gera grundvallarbreytingar á skipulagi skólans. Þær breytingar eru sambærilegar við breytingar sem aðrir háskólar á Íslandi hafa ráðist í á undanförnum árum, þ.e.a.s. að fella nokkra deildir undir svið og ráða sviðsforseta yfir sviðin. Hjá Listaháskólanum voru búin til þrjú svið og ráðnir inn sviðsforsetar sem nú eru næstu yfirmenn deildarforseta í stað rektors áður. Með sviðsforsetunum kemur inn mikill liðsauki við að fylgja eftir bæði faglegum og rekstrarlegum áherslum í samræmi við stefnu og áætlanir Listaháskólans til skemmri og lengri tíma.
Þessar ráðstafanir höfðu í för með sér umtalsverðar breytingar á starfslýsingum deildarforseta. Áður laut starf þeirra ekki einvörðungu að því að stýra deildum, heldur fór einnig drjúgur hluti þeirra skyldna í að sinna rekstri og fjármálum háskólans sem heildar, í samstarfi við rektor og framkvæmdastjóra. Samkvæmt breyttum starfslýsingum hverfist starf deildarforseta nú fyrst og fremst um innra starf deilda, áherslu á listræna sýn og stefnumótun listgreinarinnar.
Deildarforsetar við LHÍ unnu fyrir innleiðingu á þessum breytingum samkvæmt samningum sem voru tímabundnir til 5 ára, með möguleika á endurnýjun einu sinni án auglýsingar. Við breytingarnar var ekki hreyft við samningum þeirra deildarforseta sem enn voru í gildi er innleiðing hófst, en nýráðningar deildarforseta hafa verið miðaðar við breytingarnar. Þess skal getið að endurnýjun á starfsamningum almennt er ekki sjálfvirk hjá LHÍ, heldur framkvæmd með viðtali og samtali um starfið, áherslur og framtíðarsýn.
Er samningur við deildarforseta myndlistardeilar rann út, ári eftir að breytingarnar tóku gildi, var það niðurstaða stjórnar að breytingar á starfslýsingum deildarforseta og hlutverkum þeirra væru það veigamiklar að rétt væri að auglýsa starfið til að tryggja að hæfasti aðili sem völ er á stýrði deildinni með óskorað umboð. Viðkomandi deildarforseti var því hvattur til að sækja um á nýjan leik og þannig gefið færi á að endurnýja umboð sitt í samræmi við nýja starfslýsingu. Allt var þetta gert með nægilegum fyrirvara og í samræmi við þau verkferli og þá ráðgjöf sem LHÍ býr að í öllu sínu starfi.
Eins og komið hefur fram í auglýsingum um öll störf í LHÍ um árabil, gildir trúnaður um allar ráðningar og ráðningarferli. Það er því erfitt um vik fyrir mig sem forsvarsmann háskólans að svara fyrir einstök tilvik, án þess að brjóta trúnað.
Hins vegar get ég með góðri samvisku greint frá því að í öllum ráðningum á akademískum stöðum er horft til þess annars vegar að umsækjendur fari í hæfismat, sem utanaðkomandi hæfisnefnd framkvæmir og standist hæfi sem lektorar, dósentar eða prófessorar. Hins vegar er horft til frammistöðu í viðtali. Allir sem fá hæfi eru boðaðir í viðtal, sem er almenns eðlis út frá umsókn. Þeir sem standa sig best fá síðan annað viðtal út frá verkefni sem umsækjandi vinnur sérstaklega og kynnir fyrir viðtalsnefndinni og ræðir síðan í kjölfarið. Frammistaða í viðtali vegur augljóslega þungt, því ef einungis væri horft til niðurstöðu hæfisnefndar um hæfi væri sjálfráðið í stöðurnar af utanaðkomandi hæfisnefnd án þess að skólinn kæmi þar við sögu.
Í öllum auglýstum stöðum áskilur LHÍ sér rétt til að velja umsækjanda, eða hafna öllum umsækjendum eftir atvikum. Sú ráðstöfun er til að tryggja að ef umsækjendur mæta ekki þeim kröfum sem gerðar eru, ekki einungis í hæfismati heldur einnig í viðtalsferli, þá er skólinn ekki skuldbundinn til að ráða viðkomandi heldur getur haldið áfram að leita að hæfasta aðila sem völ er á.
Í viðtalsnefnd fyrir stöður deildarforseta sitja þrír aðilar; rektor, sviðsforseti og óháður utanaðkomandi aðili af fagsviði. Þess má geta að í minni starfstíð hafa engir deildarforsetar verið ráðnir í slíkar stöður (og þeir eru nú orðnir sjö auk þriggja sviðsforseta) án þess að fullkomin samstaða ríki um ráðninguna frá öllum í viðtalsnefndinni.
Með vísan til framangreinds fráleitt að halda því fram að rektor getir beitt ráðningarferlum til að losna við eða bola fólki úr starfi. Þvert á móti eru margir sem koma að ráðningarferlum, mat er ítarlegt og margþátta auk þess sem álit fagaðila úr listgreininni er mikils metið og skiptir oft sköpum vegna innsýnar inn í fagvettvanginn.
Þá má nefna að í þeim tilvikum sem nauðsynlegt er að víkja starfsmanni úr starfi er farið eftir viðhlítandi lögum, reglum og samningum sem um gilda um uppsagnir, án þess að ráðningarferli komi þar nokkuð við sögu.
Við málsmeðferð þeirra ráðningarferla sem fyrrum deildarforseti vísar til var farið eftir framangreindum verkferlum í einu og öllu, og farið með hennar umsóknir eins og aðrar. Í starf deildarforseta myndlistardeildar var ráðinn sá aðili sem að teknu tilliti til heildstæðs mats og frammistöðu í ráðningarferlinu skoraði hæst.
Að lokum vil ég nefna að ég er sammála fyrrum deildarforseta um að öll umræða um LHÍ sé af hinu góða og vonandi gefur ofangreind lýsing skýrari mynd af verklagi og faglegum viðmiðum í háskólanum. Sú mynd sem fyrrum deildarforseti gefur af forsendum fyrir því að hún var ekki ráðin í nýtt hlutverk deildarforseta er þó því miður villandi og ég hafna því alfarið að ástæðurnar þar að baki liggi í skoðanaágreiningi á milli mín og hennar, eða persónulegum samskiptum sem hún rekur einhliða úr tveggja manna tali og ég get ekki svarað vegna skuldbindinga um trúnað.
Fagleg ferli, sem eru margreynd, koma enda sem betur fer í veg fyrir að slíkt sé mögulegt, ítarleg og stöðluð gögn úr ráðningarferlum eru m.a. til staðfestingar á því í öllum akademískum ráðningum LHÍ.
Sem sjálfseignarstofnun tekur Listaháskóli Íslands hlutverk sitt mjög alvarlega enda þjóðarskóli. Af þeim sökum er ábyrgð stjórnenda mjög rík gagnvart bæði hinum opinbera sem fjármagnar skólann að stærstum hluta, en ekki síður gagnvart faglegum viðmiðum í innra starfi eins og það mætir nemendum og starfsfólki. Faglegum verkferlum, við ráðningar sem og allt annað í starfseminni, er fylgt til hins ítrasta til að tryggja gæði sem best. Okkar umbótamiðaða gæðastarf hefur enda leitt í ljós að LHÍ stendur farsællega undir nafni hvað varðar trúverðugleika, stefnumótun og gæði kennslu bæði hér innanlands og á alþjóðavettvangi.
Fríða Björk Ingvarsdóttir
rektor Listaháskóla Íslands.“