fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Ungabarn fékk ranga lyfjablöndu úr Apótekaranum – „Ég hélt að ég myndi varla lifa það af að sjá hversu kvalin hún var“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 10. nóvember 2021 14:16

Mynd: apotekarinn.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karen Drífa Þórhallsdóttir varð fyrir þeirri skelfilegu reynslu að fá rangt blandað sýklalyf handa kornungri dóttur sinni hjá Apótekaranum í Mosfellsbæ. Dóttir Karenar, sem er 17 mánaða gömul núna, fékk þráláta eyrnabólgu og aðra kvilla í kjölfar þess að hún byrjaði í leikskóla í haust. Var hún sett á þrjá sýklalyfjakúra vegna veikindanna.

Þegar Karen fékk þriðja skammtinn fyrir barnið vildi svo skelfilega óheppilega til að hann var ekki rétt blandaður. Kom á daginn að innihald flöskunnar dugði ekki fyrir skömmtunum sem voru uppáskrifaðir. Er Karen fór í Apótekarann í Mosfellsbæ og spurði hverju sætti að lyfið væri búið fyrir tímann fékk hún þau svör hjá lyfjafræðingi sem starfar á staðnum einn dag í viku, að kollegi hennar hefði blandað lyfið rangt og innihald sýklalyfs væri of hátt. Þetta þýddi að þegar Karen gaf dóttur sinni uppsáskrifaðan skammt hverju sinni var hún að gefa henni 8-900 mg af sýklalyfi í staðinn fyrir þau 350 mg sem hún átti að fá. Lyfjafræðingurinn hringdi upp á eitrunardeild sem hafði samband við Karen og boðaði hana með dóttur sína undir eins í eitrunarpróf á bráðamóttöku barnaspítalans.

Barnið hafði blessunarlega sloppið við sýkingu en þurfti að hætta strax á lyfjunum þó að eyrnabólgan væri ekki horfin. Nokkrum dögum síðar fékk barnið mikla sveppasýkingu í tannholdið sem afleiðingu af magni lyfjanna, ofan á eyrnabólguna. Segir Karen að stúlkan hafi verið hræðilega kvalin í marga daga, hafi ekkert getað borðað nema eitthvað í fljótandi formi og hafi lést mjög hratt.

Segir lyfjafræðinginn hafa gert lítið úr mistökunum

Karen hefur greint frá málinu í Íbúahópi Mosfellinga á Facebook auk þess að ræða það við DV. Meginástæða þess að hún stígur fram með þessa sögu eru viðbrögð lyfjafræðingsins sem bar ábyrgð á blöndun lyfsins.

Lyfjafræðingurinn sem greindi mistökin og starfar á staðnum einu sinni í viku ráðlagði Karen að senda tilkynningu um málið til Lyfjastofnunar og ræða við lyfjafræðinginn sem sá um að blanda lyfið og vinnu fjóra daga vikunnar á staðnum. Viðbrögð þess starfsmanns voru henni áfall. Segir hún konuna hafa reynt að drepa málinu á dreif, hún hafi farið að ræða atriði sem komu því ekki við, t.d. hvers vegna dóttir Karenar væri á svona miklum sýklalyfjum. Einnig virtist hún draga í efa að mistök hafi átt sér stað, þ.e. hún sagði að hún vissi ekki hvað hún hefði sett mikið magn af sýklalyfi í blönduna. „En auðvitað hafði hún sett of mikið, því ég gef barninu mínu ekki meira en uppáskrifaðan skammt hverju sinni,“ segir Karen.

„Ég hélt ég myndi mæta konu með tárin í augunum en hún baðst ekki fyrirgefningar og fór að ræða um óskyld mál, um af hverju læknirinn skrifaði upp á þetta og af hverju barnið mitt væri svona veikt. Hún var meira að gera lítið úr mistökunum og drepa málinu á dreif, með því til dæmis að spyrja hvers vegna barnið væri að fá svona mörg sýklalyf. En samt sagði að hún vissi ekki hvað hafi verið mikið í flöskunni. Ég benti henni á að ég væri ekki að gefa barninu mínu meira en skráðan skammt. Ég veit ekki, ég veit ekki, sagði hún. Ég sagði: Fyrirgefðu, en mér finnst þú ekki taka þessu nægilega alvarlega. Þú blandar lyfið vitlaust, það er vandamálið.“

Segist Karen hafa orðið að orðið að rjúfa samtalið og yfirgefa staðinn því hún gat ekki átt í þessum samræðum lengur.

„Ég átti von á að mæta konu á barmi taugaáfalls yfir því að hafa óvart eitrað fyrir ungabarni en í staðinn mætti ég hroka og algjöru kæruleysi. Ég átti aldrei von á að mæta þessu viðmóti,“ segir Karen.

Hún segir að dóttir sín hafi náð sér líkamlega í dag að mestu en ekki andlega. Um tveir mánuður eru nú liðnir síðan hún fékk ofskammtana af sýklalyfi.

„Hún er að braggast. Hún er laus við eyrnabólgu og sveppasýkingu sem hún fékk í munninn af þessu. Hins vegar erum við samt að fást við afleiðingar af þessu ennþá. Það er mikil barátta að fá að bursta í henni tennurnar því hún er í andlegu áfalli eftir þessa sýkingu í munninum sem var svo mikil að maður sá ekki í tennurnar. Þegar hún loksins vildi opna á sér munninn kom í ljós að hún hafði fengið fullt af nýjum tönnum því hún hafði ekki fengist til að opna munninn í langan tíma,“ segir Karen.

DV hafði samband við Kjartan Örn Þórðarson, framkvæmdastjóra Apótekarans. Hann hafði heyrt af málinu en sagðist verða að kynna sér það betur til að geta tjáð sig um það.

Frásögn Karenar

Vegna viðbragða lyfjafræðingsins við eigin mistökum hefur Karen séð sig knúna til að birta eftirfarandi frásögn um málið í íbúahópi Mosfellinga:

 

Sælir kæru Mosfellingar.

 Mig langar til að deila smá reynslu með ykkur sem 17 mánaða gömul dóttir mín varð fyrir hjá Apótekaranum í Mosó hjá nýju heilsugæslustöðinni fyrir stuttu svona sem víti til varnar.

Dóttir mín var sem sagt að byrja á leikskóla í haust og fékk tilheyrandi allskonar veikindi og þar á meðal þráláta eyrnabólgu og var sett á sýklalyf þrisvar sinnum.

 Í þriðja skiptið dugði flaskan sem hún fékk frá apótekinu ekki fyrir skammtana sem voru uppaskrifaðir fyrir hana. Ég fór undrandi í apótekið og spurði hvort hún ætti meira inni hjá þeim eða eitthvað svoleiðis.

Lyfjafræðingurinn sem var á vakt þá (einu vaktinni sem hún vinnur í viku í þessu apóteki) fannst þetta jafn skrítið og mér og fór bakvið að reyna að finna eitthvað út úr þessu. Hún kom aftur fram eftir dágóða stund og sagði mér að það kæmi ekkert annað til greina að hennar mati en að lyfjafræðingurinn sem vinnur alla hina dagana og blandaði lyfið hafi blandað það rangt.

 Þetta þýddi að dóttir mín hafði fengið um 8-900mg af sýklalyfi í staðinn fyrir 350mg í 4 daga. Lyfjafræðingurinn hringdi strax upp á eitrunardeild sem hafði svo samband við mig nokkrum mínútum síðar og við vorum beðin um að bruna með dóttur okkar upp á bráðamóttöku barnaspítalans í eitrunarpróf.

 Það kom í ljós að hún hafði blessunarlega sloppið við eitrun en þurfti umsvifalaust að hætta að taka inn lyfin þó svo að eyrnabólgan væri ekki horfin. Nokkrum dögum síðar fékk hún svo hræðilega mikla sveppasýkingu í tannholdið sem afleiðingu af magni lyfjanna ofan á eyrnabólguna og ég hélt að ég myndi varla lifa það af að sjá hversu kvalin hún var og hún gat ekkert borðað í marga daga og léttist mjög hratt.

 Lyfjafræðingurinn sem hafði greint vandamálið hafði mælt með því að bæði tilkynna atvikið til Lyfjastofnunar og að koma svo aftur með glasið í apótekið og ræða við lyfjafræðinginn sem blandaði lyfið.

 Þegar ég fór aftur í apótekið algjörlega uppgefin og hreinlega stressuð yfir því að tala við konu sem ég hélt að myndi vera með tárin í augunum yfir því að hafa mögulega eitrað fyrir ungabarni þá mætti ég í staðinn algjöru skilningsleysi og kæruleysi.

 Viðkomandi lyfjafræðingur hóf bara að rökræða um hvað hafði verið í glasinu og hvers vegna barnið fékk svona oft sýklalyf o.s.frv. Í stuttu máli þá þurfti ég bara að stöðva samtalið, taka glasið af konunni til baka og fara.

 Ég á svo erfittt með að skilja afstöðu lyfjafræðingsnins að taka því ekki alvarlegra en þetta að hafa gert svo grafalvarleg mistök í svo ábyrgðarfullu starfi.

 Mér fannst það því ekki alveg nóg að tilkynna atvikið eingöngu til Lyfjastofnunar heldur vildi ég líka láta ykkur sem búið þarna í kring vita af þessu.

Höfum augun alltaf opin

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands mótmæla Coda Terminal – „Allt of mörgum spurningum er ósvarað“

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands mótmæla Coda Terminal – „Allt of mörgum spurningum er ósvarað“
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Örn vill að borgin setji lóðaleigu á flugvöllinn – „Þeir rændu þá besta mannvistar- og byggingarsvæði Reykvíkinga“

Örn vill að borgin setji lóðaleigu á flugvöllinn – „Þeir rændu þá besta mannvistar- og byggingarsvæði Reykvíkinga“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Ökukennari segir illa komið fram við eldri ökumenn: „Að mínu mati al­gjör­lega út í hött“

Ökukennari segir illa komið fram við eldri ökumenn: „Að mínu mati al­gjör­lega út í hött“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Dagur kveður borgarstjórn eftir nær aldarfjórðung – „Ég elska Reykjavík“

Dagur kveður borgarstjórn eftir nær aldarfjórðung – „Ég elska Reykjavík“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Illugi ómyrkur í máli – „Þetta var Hitlers-kveðja og ekkert annað“

Illugi ómyrkur í máli – „Þetta var Hitlers-kveðja og ekkert annað“
Fréttir
Í gær

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello
Fréttir
Í gær

Maður á sextugsaldri misþyrmdi lögreglumanni í Þarabakka

Maður á sextugsaldri misþyrmdi lögreglumanni í Þarabakka