Reykjavíkurborg greiddi 697.209.198 kr.- til HTO ehf. í fyrra vegna leigu á skrifstofum Reykjavíkurborgar á Höfðatorgi við Borgartún. Þetta kemur fram í svari upplýsingafulltrúa borgarinnar við fyrirspurn DV um málið.
Á heimasíðu Reykjavíkurborgar segir að stór hluti starfsemi borgarinnar sé í húsinu umrædda við Borgartún 12-14 og að þar starfi 450 starfsmenn borgarinnar. Þannig má segja að borgin hafi greitt rúma eina og hálfa milljón á ári undir vinnuaðstöðu hvers einasta starfsmanns á Höfðatorgi í fyrra.
Reykjavíkurborg leigir húsnæðið af HTO ehf., sem er svo í eigu fasteignafélagsins Regins. Reginn er svo að lang mestu í eigu ýmissa lífeyrissjóða og banka. Stærstu eigendur Regins eru eftirfarandi:
Lífeyrissjóður verzlunarmanna (10%)
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins A-deild (10%)
Gildi (9%)
Birta lífeyrissjóður (7%)
Brú lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga (5%)
Stapi lífeyrissjóður (5%)
Frjálsi lífeyrissjóðurinn (4%)
Festa lífeyrissjóður (4%)
Brimgarðar ehf. (4%)
Sigla ehf. (3%)
Arion banki (3%)
Í frétt mbl.is um þetta sama hús árið 2009 segir að greidd leiga hafi verið á því ári 460 milljónir, og hefur því orðið umtalsverð hækkun á leigugreiðslum síðan þá. Leigusamningurinn var samþykktur árið 2008 og gerður til 25 ára, en þá við byggingafélagið Eykt ehf. sem byggði húsið á lóð sem það örfáum árum áður keypti af Reykjavíkurborg á 350 milljónir. Er þar um að ræða svokallaðan Skúlatúnsreit sem borgin seldi Eykt að undangengnu útboði.
Borgin er nú með starfsemi á þremur stöðum, í áðurnefndu húsi við Borgartún, í Ráðhúsi Reykjavíkur við Tjörnina og í Hinu húsinu við Rafstöðvarveg í Elliðaárdalnum.