Flugfélagið PLAY hefur bætt fjórum áfangastöðum í Evrópu við áætlun sína, Lissabon í Portúgal, Prag í Tékklandi, Bologna á Ítalíu og Stuttgart í Þýskalandi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.
Flug til Lissabon hefst um miðjan maí á næsta ári og verður flogið tvisvar í viku. Áætlunarferðir PLAY til Prag hefjast sömuleiðis í maí á næsta ári og verður jafnframt flogið þangað tvisvar í viku. Þá mun PLAY einnig fljúga tvisvar í viku til Bologna og Stuttgart en áætlunarferðir þangað hefjast í júní á næsta ári.
Borgirnar Lissabon, Stuttgart og Bologna eiga það allar sameiginlegt að ekki er flogið beint þangað frá Íslandi eins og staðan er í dag.
Portúgal er vinsæll áfangastaður á meðal Íslendinga. Þá eru nær þrettán hundruð manns búsettir á Íslandi sem eru ættaðir frá Portúgal og má búast við að sá hópur nýti sér beint flug til Lissabon. Þó er gert ráð fyrir að meirihluti þeirra sem munu nýta sér þessar áætlunarferðir séu íbúar Portúgals. Höfuðborgin Lissabon er stærsta borg landsins en um 2,8 milljónir búa á Lissabon-svæðinu, sem er um 30 prósent af íbúafjölda Portúgals.
Bologna er ein auðugasta borg Ítalíu og á sér merkilega sögu þegar kemur að byggingarlist, matarmenningu og iðnaði. Þessi fallega borg er mjög miðsvæðis á Ítalíu og því ekki langt í aðrar áhugaverðar borgir, þar á meðal Flórens, Písa og Feneyjar.
Stuttgart er fjölbreytt menningarborg og rómuð fyrir víngerð, bílaframleiðslu og tæknibyltingu. Fegurðardrottningin Prag er sömuleiðis vinsæll áfangastaður ferðamanna, en hún er í sérstökum metum hjá fagurkerum, listunnendum og heimsborgurum.
„Þessir fjórir nýju áfangastaðir munu styrkja leiðakerfi PLAY og frábært að geta opnað Evrópu enn frekar fyrir Íslendingum. Við höfum fulla trú á þessum áfangastöðum og búumst ekki við öðru en að þeim verði vel tekið, bæði af Íslendingum sem og þeim sem búa í þessum borgum og vilja ferðast til Íslands,” segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.