Ökumaðurinn sem slasaðist í slysi í morgun við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Sæbraut er látinn. Sagt var frá því í morgun að alvarlegt slys hefði orðið klukkan 8:08 í morgun og að annar ökumaðurinn lægi mikið slasaður á gjörgæslu.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sagði frá andlátinu í tilkynningu til fjölmiðla nú rétt í þessu.
Lögreglan og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka nú tildrög slyssins, en fyrir liggur að rafhlaupahjól og létt bifhjól rákust saman með fyrrgreindum afleiðingum.
Slysið markar sorgleg kaflaskil í sögu rafhlaupahjóla hér á landi, en aldrei áður hefur bani hlotist af slysum þar sem rafhlaupahjól koma við sögu hér á landi.
Mikill fjöldi rafhlaupahjóla stendur íbúum höfuðborgarinnar nú til leigu á vegum fjölmargra fyrirtækja. Er hámarkshraði þeirra allra bundinn við 25 km/klst hraða, en það er hámarkshraði vélknúinna ökutækja á göngustígum. Þá hefur fjöldinn allur af slíkum hjólum verið seldur til einstaklinga á undanförnum árum.