fbpx
Laugardagur 25.janúar 2025
Fréttir

Starfslokasamningurinn sem Sólveig Anna vildi ekki segja stjórninni frá – Níu mánaða greiðslur eftir tveggja ára starf – „Skrifstofan er algjörlega höfuðlaus“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Mánudaginn 1. nóvember 2021 20:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðmundur Baldursson, stjórnarmaður Eflingar, var gestur í Kastljósi í kvöld þar sem hann fór yfir atburðarásina sem varð til þess að formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir, sagði af sér í gær.

Hann segir meðal annars hafi málið varðað starfslokasamning sem Efling gerði við skrifstofustjóra í kjölfar þriggja mánaða veikindaleyfis.

Hafði Guðmundur spurn að því að starfslokasamningur hafi verið gerður við umræddan einstakling og óskaði sama dag eftir því við Sólveigu Önnu á stjórnarfundi að hún upplýsti um efni samningsins.

Segir hann að Sólveig hafi orðið hissa að hann vissi af samningnum og síðan harðneitað að upplýsa stjórnina um efni hans.

Hann segist þó hafa komist að því að umræddur samningur hafi hljóðað upp á níu mánaða greiðslu, sem hann telur óeðlilegt í kjölfar þriggja mánaða veikindaleyfis og eftir aðeins um tveggja ára starf.

„Það var skrifstofustjóri sem var sagt upp störfum. Og áður en ég komst að því þá hringdi ég til að fá að vita – ég var búinn að heyra af því að starfsmaður væri í veikindaleyfi og vildi athuga með það og fékk upplýsingar um það og hringdi – þá tjáði hún mér það um ellefu um morguninn að hún hafi verið uppi í Eflingu að skrifa undir starfslokasamning.

Og klukkan eitt sama dag þá er stjórnarfundur og þá spyr ég Sólveigu Önnu hvort það hafi verið skrifað undir starfslokasamning um morguninn. Hún hváði við og spurði hvernig ég hefði komist að því – ég sagði henni ekki frá því sagðist bara hafa mínar heimildir – og þá var það rétt.“

Sólveig neitaði þó að upplýsa Guðmund um efni starfslokasamnings, eitthvað sem stjórnarmenn eiga þó að hafa rétt á að vita. Hann komst þó að því með öðrum leiðum að um níu mánaða samning var að ræða.

„Níu mánuðir eftir tveggja ára starf þykir nokkuð ríflegt.“

Hafnar ásökunum um að ganga erinda annara

Guðmundur þráspurði einnig eftir ályktun trúnaðarmanna en fékk þá svörin að hann ætti engan rétt á því þar sem umrædd gögn væru aðeins fyrir „þremenningana“ eins og Guðmundur kallar Sólveigu Önnu, Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóra og Agneiszku Ewu Ziólkowska varaformann.

Guðmundur hafnar því að hann sé að ganga erinda einhverra afla sem tengjast baráttu Eflingar við Icelandair og Samtök atvinnulífsins í kjölfar uppsagnar trúnaðarmanns. Hann hafnar því jafnframt að ganga erindinda pólitískra afla eða hafa. þegið greiðslur fyrir að beita sér gegn Sólveigu.

„Ég er eingöngu að fara eftir þeim lögum sem mér ber að gera.“

Guðmundur segir í því samhengi að hann hafi verið sakaður um að hafa eyðilagt baráttu umrædds hlaðmanns Icelandair en það sé hins vegar ekki svo.

„Sá sem eyðilagði þessa baráttu var Sólveig Anna sjálf því hefði hún afhent þessa ályktun á sínum tíma hefðum við getað kallað inn vinnustaðasálfræðing til að fara yfir skrifstofuna og finna þessa hnökra og fengið svo skýrslu frá þessum sérfræðingum inn á borð stjórnar og þannig hefðum við unnið úr þessu. þessi staða væri ekki svona í dag hefði þessi leið verið valin en hún harðneitaði því allan tímann.“

Guðmundur segist hafa lagt slíkt til en því hafi verið neitað.

Starfsfólkið steypir ekki formanninum

Varðandi hvort það sæti ekki furðu að starfsfólk skrifstofu Eflingar geti steypt lýðræðislega kjörnum formanni segir Guðmundur:

„Starfsfólkið steypir ekki formanninum. Þegar hún gengur inn á þennan fund á föstudags morguninn klukkan 8:15 og gefur þeim afarkosti að ef þið dragið ekki þessa ályktun til baka þá hefur það þær afleiðingar í för með sér að ég segi af mér og Viðar kemur með mér. Þetta er náttúrlega óviðunandi aðstæður til að setja fólk í. Þetta er uppsafnaður vandi eins og ég sagði áðan. Hefði verið tekið á þessu strax í upphafi væri allt í fínu lagi.“

Vill varaformanninn út líka

Guðmundur segir það skipta máli að starfsfólk sé ánægt og öruggt í vinnu. Skrifstofa Eflingar sé beinagrind verkalýðsfélagsins og þurfi  starfsemi þar að vera í góðu lagi til að hægt sé að sinna málefnum félagsmanna.

„Þetta eru stjórnendamistök frá því í maí að hafa ekki komið með þessa ályktun upp á borðið. Og það eru bara því miður mjög slæmar afleiðingar af því“

Aðspurður um hvað taki við segir Guðmundur að nú séu tveir farnir, Sólveig Anna og Viðar. En eftir standi varaformaðurinn Agneiszku sem Guðmundur telur rökrétt að segi líka af sér.

„Framhaldið? Það hlýtur að vera í höndum trúnaðarráðs sem er æðsta afl verkalýðsfélagsins en það sér það hver maður að þetta getur ekki gengið svona. Skrifstofan er algjörlega höfuðlaus“

Meirihlutinn vill Guðmund út

Í yfirlýsingu meirihluta stjórnar Eflingar er framgöngu Guðmundar mótmælt og hann sakaður um að hafa fyrir augum að stofna klofningsfélag. Hafi hann meðal annars lýst þeim vilja sínum yfir í opnum hópum á samfélagsmiðlum „þar sem fulltrúar atvinnurekenda fjölda Eflingarfélaga eru meðlimir. Að okkar mati þarf ekki að fjölyrða frekar um hollustu Guðmundar við Eflingu og félagsmenn Eflingar. Við hvetjum Guðmund til að segja sig úr stjórn Eflingar og láta verða af hugmyndum sínum um stofnun nýs klofningsstéttarfélags.“

Sjá einnig: Upplausn í Eflingu – Meirihluti stjórnar skorar á Guðmund að segja sig úr stjórn og mótmæla framgöngu hans

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“
Fréttir
Í gær

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum