Fréttaskýringaþátturinn Kveikur hefur verið harðlega gagnrýndur undanfarna viku fyrir einhliða umfjöllun um útilokunarmenningu, en í þættinum var aðeins rætt við leikarann Þóri Sæmundsson – sem telur sig vera fórnarlamb útilokunarmenningar síðan upp komst um kynferðislegar myndsendingar hans til ólögráða barna árið 2017. Baráttusamtökin Líf án ofbeldis benda á að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem Kveikur geri álíka einhliða umfjöllun sem sé til þess fallin að valda þolendum ofbeldis skaða.
Árið 2017 hafi Kveikur fjallað um foreldraútilokun þar sem aðeins ein hlið var dregin fram í umfjöllun. Gabríela Bryndís Ernudóttir, formaður Líf án ofbeldis og Sigrún Sif Jóelsdóttir, talskona samtakanna, skrifa um þetta í pistli sem birtist hjá Vísi í dag.
„Umfjöllunarefnið var „foreldraútilokun sem alvarlegt ofbeldisbrot“. Þóra Arnórsdóttir stýrði þættinum þar sem burðarbitinn er viðtal við Maríu Júlíu Rúnarsdóttur lögfræðing sem titluð var við tilefnið, sérfræðingur í barnarétti. María sem hefur beitt sér af hörku fyrir því að umgengnistálmanir verði gerðar refsiverðar er jafnframt einhver ötulasti talsmaður kenningarinnar um svokallað „foreldrafirringaheilkenni“ á Íslandi, um að tálmun á umgengni sé foreldraútilokun og jafngildi í sjálfu sér ofbeldi gegn barni.“
Þær Gabríela og Sigrún Sif benda á að tilefni umfjöllunar RÚV á þeim tíma hafi verið ráðstefna sem var haldin á vegum þrýstihópa umgengnisforeldra og umræða sem meðal annars átti sér stað inn á Alþingi um að umgengnistálmanir ættu að vera refsiverðar þar sem um andlegt ofbeldi væri að ræða.
„Þetta kaldranalega viðhorf dregur upp ranga mynd af stöðu mála sem langflest varða ofbeldi í fjölskyldum, og gefur í skyn að takmörkun á umgengni sé á einhvern hátt sambærilegt við að beita barn kynferðis- eða heimilisofbeldi. Ýtir það frekar undir samúð með gerendum ofbeldis og málar þolendur upp sem gerendur,“ skrifa Gabríela og Sigrún Sif. Benda þær á að Kveikur hafi þá í umfjöllun sinni dregið upp einhliða mynd af foreldraútilokun og tálmunarmálum og byggt umfjöllunina að hluta á hugmyndafræði og kenningum sem hafa í dag lítinn sem engan trúverðugleika í fræðasamfélaginu.
„Að kalla það rannsóknarblaðamennsku að fjalla einhliða um foreldraútilokun sem meint ofbeldi mæðra gegn börnum sínum, er eitthvað sem stenst ekki eina leit á google. Framsetning þáttarins var frá sjónarhorni sem kokgleypir við hugmyndafræði sem hefur víðast verið sett í flokk rusl-vísinda af fræðafólki og verið hafnað af öllum leiðandi samtökum innan geðlæknisfræði, sálfræði og læknisfræði á Vesturlöndum vegna vöntunar á raunprófunum eða klínískum athugunum sem styðja kenninguna.“
Kveikur hafi ekki dregið fram hvernig hugtakinu „foreldrafirring“ hafi verið beitt í framkvæmd og hvaða afleiðingar það hafi haft á líf barna. Eins og í tilfellum þar sem feður hafi beitt móður eða barn ofbeldi, eða í tilfellum þar sem barn er skikkað í umgengni hjá föður sem grunaður er um að hafa beitt það kynferðisofbeldi.
Dagskrárgerðarfólk Kveiks, áður fréttaskýringaþáttar Kastljóss, hefur ekki sýnt áhuga á að skoða sjónarhorn þolenda heimilisofbeldis sem orðið hafa fyrir barðinu á þessum kvenhaturshugmyndum sem haldið var á lofti sem sannindum, þrátt fyrir að leitað hafi verið til þeirra.
Ritstjórn Kveiks virðist til að mynda ekki telja eiga erindi í þáttinn mál barna sem segja frá kynferðisbrotum föður gegn þeim, staðfest í Barnahúsi, en Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu skikkar í eftirlitslausa umgengni við gerandann og áfellist móðurina sérstaklega fyrir að greina frá ofbeldinu.
„Skaðinn af vandlætingunni í samfélaginu gagnvart konum sem segja frá ofbeldi er áþreifanlegur í lífi barna og mæðra með ákvörðun sýslumanna og dómstóla eins og samtökin Líf án ofbeldis og talsfólk þeirra hefur reynt með öllum ráðum að koma á framfæri.“
Gabríela og Sigrún Sif benda á að Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kveiks, hafi lýst því yfir í hlaðvarpinu Karlmennskan í gær að í dag væri þolendum almennt trúað.
„Við þessi orð staldra þolendur ofbeldis í nánum samböndum, konur og uppkomin börn. Mæðrum og börnum þeirra er ekki trúað af kerfinu þegar feður hafa beitt börnin og mæður þeirra ofbeldi og mæðrum er gert ókleift af yfirvöldum að vernda börn sín. Börnum, sem segja frá ofbeldi foreldris, er ekki trúað af yfirvöldum og uppkomin börn þurfa oft að slíta tengsl við stóran hluta ef ekki alla fjölskyldu sína, til þess að geta lifað af, vegna þess að þeim er ekki trúað.“