Rakel Þorbergsdóttir hefur sagt upp störfum sem fréttastjóri RUV. Starfsmönnum RUV var tilkynnt um þetta nú rétt í þessu.
Í tölvupósti frá Stefáni Eiríkssyni, útvarpsstjóra, kemur fram að hún muni láta af störfum frá og með næstu áramótum og mun hverfa til annarra starfa. Rakel hefur starfað á RUV í 22 ár, en gegnt stöðu fréttastjóra frá 2014, í rúm sjö ár.
„Rakel hefur leitt fréttastofuna undanfarin ár af mikilli fagmennsku og öryggi og fest hana í sessi sem þann fréttamiðil sem fólk ber mest traust til. Hún hefur sýnt framsýni í störfum sínum og lagt mikilvægan grunn undir starfsemi fréttastofunnar til næstu ára. Fyrir hönd RÚV færi ég henni hlýjar kveðjur og þakkir fyrir hennar mikilvæga framlag og frábæru störf á liðnum árum og óska henni alls hins besta í framtíðinni,“ sagði Stefán jafnframt í pósti sínum.
Heiðar Örn Sigurfinnsson mun gegna starfi fréttastjóra þar til auglýst verður eftir arftaka Rakelar á nýju ári.