Fréttablaðið skýrir frá þessu. Blaðið skýrði frá ummælum Þorbjargar Ingu nýlega þegar fjallað var um ráðstefnu um réttlæti sem var haldin á Hólum. Á ráðstefnunni sagði Þorbjörg Inga, sem hefur áratugum saman sinnt réttargæslu fyrir þolendur kynferðisofbeldis, að enginn vafi léki á að kerfið mismunaði fólki eftir þjóðfélagsstöðu þess. „Ég upplifi að það skipti mjög miklu máli hver þú ert og hver brýtur á þér í nauðgunarmálum,“ sagði hún meðal annars.
Fréttablaðið hefur eftir Fjölni Sæmundssyni, formanni Landssambands lögreglumanna, að ummæli Þorbjargar Ingu séu viðkvæmari en ella því hún eigi sæti í ráðherraskipaðri nefnd um eftirlit með störfum lögreglu. Það veki spurningar um hæfi þegar manneskja sem á að hafa eftirlit með lögreglu felli slíka dóma yfir lögreglumönnum á opinberum vettvangi.
Fjölnir sendi því bréf til dómsmálaráðuneytisins fyrir hönd lögreglumanna. Í því segir að í ljósi þessara ummæla Þorbjargar Ingu sé ekki annað hægt en að hvetja til þess að embætti ríkissaksóknara verið falið að rannsaka starfshætti lögreglunnar við skýrslutökur af brotaþolum og gerendum.