Er Ingva gefið að sök í ákærunni að hafa veist að fórnarlambi sínu með hníf þannig að hann hlaut fimm skurði á líkama sinn, einn við vinstri öxl og fjóra á vinstri handlegg. Segir í ákærunni að skurðirnir hafi verið 2,5 – 5 sentimetra langir og tveir þeirra náð niður í vöðva.
Brotaþoli krefst þriggja milljóna bótagreiðslu úr hendi Ingva Hrafns. Saksóknari krefst þess að Ingvi verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
DV sagði frá því í apríl á þessu ári að harkaleg slagsmál hefðu brotist út á Sushi Social og birti með fréttinni myndband sem aðrir gestir veitingastaðarins tóku af átökunum. Strax varð ljóst að eitthvað mikið hafði gengið á á milli mannanna, en á myndbandinu má sjá árásarmanninn sveifla því sem virðist vera hnífur í átt að öðrum manni.
Starfsmaður á veitingastaðnum sagði í samtali við DV að árásin hefði tekið fljótt af og að lögregla hafi verið fljót á vettvang. „Þetta var bara mjög fljótt að gerast, maður sá varla hvað var í gangi. Þetta byrjaði og endaði áður en maður vissi af því og svo var lögreglan bara mætt,“ hafði DV eftir starfsmanninum í apríl.
Ingvi Hrafn var handtekinn skömmu eftir árásina en ekki var farið fram á gæsluvarðhald yfir honum. Aðeins rúmum tveimur mánuðum síðar var Ingvi aftur handtekinn fyrir að hafa veifað hlaðinni skammbyssu í húsakynnum Samhjálpar í Borgartúni og síðar gengið niður Borgartúnið með skammbyssuna í hendi sér þar til hann var handtekinn við gatnamót Sæbrautar.
Mikill ótti greip um sig vegna athæfis Ingva Hrafns í Borgartúninu þennan dag. Þannig lýsti til dæmis Þráinn Bj. Farestveit, framkvæmdastjóri Verndar áfangaheimilis fyrir fanga, upplifun sinni á þann veg að Ingvi hafi verið verulega ógnandi og að honum hafi liðið eins og hann væri mættur til markvissra aðgerða með byssuna að vopni.
Ingvi Hrafn var fyrir um hálfum mánuði dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir ýmis brot, framin við skrifstofu Samhjálpar í júní. Sakaferill Ingva teygir sig þó lengra aftur í tímann. Hefur hann meðal annars áður verið dæmdur fyrir innbrot, þjófnað, ýmis fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot.
Mál héraðssaksóknara gegn Ingva verður þingfest 15. nóvember næstkomandi í Héraðsdómi Reykjavíkur.