Einar Ágúst Víðisson tónlistarmaður tengist átökum sem urðu í Hafnarfirði í gærkvöld og nótt, en atburðarásin hófst á barnum Gamli Enski en hélt áfram á heimili í Hafnarfirði.
Hafnfirðingur hefur deilt ásökunum á samfélagsmiðlum í nótt þar sem hann sakar Einar Ágúst um að hafa ráðist á sig. Hann hefur birt skjáskot af ummælum Einars Ágústs í sinn garð þar sem tónlistarmaðurinn fer um hann ófögrum orðum en þau skjáskot sanna þó ekki fullyrðingar mannsins, sem meðal annars snúast um að Einar Ágúst og annar maður hafi ráðist á sig með hamri og tekið af sér farsíma.
Einar Ágúst segir ásakanir mannsins fráleitar og eigandi Gamla Enska, Bjarni Þór Jóhannsson, styður frásögn Einars af atburðunum, að svo miklu leyti sem hann telur sig þekkja til þeirra, en Bjarni var við störf á bar sínum er Einari Ágústi og manninum lenti saman.
„Ég kíkti bara þarna inn til að eiga trúnaðarsamtal við vinkonu mína. Þá kemur hann þarna öskrandi og með læti, segir mér að grjóthalda kjafti þegar ég bað hann um að vera rólegan. Hann var að rífa í stelpuna og sýndi mér ógnandi hegðun,“ segir Einar Ágúst í viðtali við DV.
Einar Ágúst segist einfaldlega hafa stigið inn í sambandsofbeldi til að verja vinkonu sína. Aðspurður hvort átökin hafi verið hörð segir hann: „Öll átök eru of mikil átök. Mér verður óglatt við ofbeldi, bara algjörlega. En hann sýndi mér ógnandi hegðun og ég hélt að hann ætlaði að henda í mig bjórglasi. Þannig að ég lagði hann á bekkinn og á gólfið, ég fór bara á móti honum.“
Maðurinn sem sakar Einar Ágúst um ofbeldi segir í samtali við DV að Einar Ágúst og annar maður hafi ruðst inn á hann og barið hann með hamri í bakið. Hann sé núna að fá morðhótanir. „Ég hef samt alveg verið erfiður,“ viðurkennir maðurinn og vísar þar til stormasams sambands við kærustu sína. „Ég var vakinn upp kl. 2:43 þar sem ég bý með kærustunni og hann var með hamar, þeir réðust á mig. Ég var fjarlægður héðan og hún stendur ekki með mér,“ segir maðurinn og er miður sín yfir atvikinu enda sé hann nýbyrjaður í nýrri vinnu.
Fólkið sem þarna kemur við sögu þekkist og maðurinn segir: „Einar er góður drengur og mér líkar vel við hann en ég kom bara á barinn til að sækja konuna mína. Ég er ekkert meiddur núna en ég þurfti að fara á slysó í nótt.“
Einar Ágúst hlær að hamarsögunni og segir hana fáránlega. „Ég átti að hafa verið með hamar! Í guðanna bænum! Gat hann ekki frekar sagt sveðja eða baseballkylfa svo ég væri svona smá kúl?“ Einar lýsir atburðarásinni svo á heimili vinkonu hans um nóttina:
„Hann hleypir kærustunni sinni ekki inn, var húinn að setja einhvern lás og keðju fyrir dyrnar og neitaði að hleypa henni inn. Hann hringdi á lögregluna en svo handtóku þeir hann! Enda býr hann ekki einu sinni þarna, þetta er hennar heimili. Hann hrindi í lögregluna til að taka mig en svo var hann bara handtekinn sjálfur.“
„Við erum bara tveir hérna heima hjá henni að passa upp á hana. Ég hef gert þetta í mörg ár. Til dæmis eftir böll, ef einhverjir strákaumingjar eru að draga burtu ungar stelpur inn í bíl, bjóðandi þeim far af því þær eiga ekki peninga, þá rétti ég þeim bara tíu þúsund kall fyrir leigubíl og svona. Ég hef engan tolerans fyrir bullshit. Það er nóg af því í mínu höfði. Og ofbeldi gagnvart konum, þetta heimilisofbeldi, það er komið nóg! Ég spring bara yfir slíku, ég tek þessa gaura og rasskelli þá út úr sveitarfélaginu. Ég er búinn að fá nóg og stend upp fyrir öllum konum.“
DV náði sambandi við Bjarna Þór Jóhannsson, eiganda Gamla Enska. Bjarni segir að miðað við það sem hann hafi upplifað á barnum í gærkvöld er mönnunum lenti saman, það sem hann hafi séð í eftirlitsmyndavélum sem hann skoðaði eftir lokun, og það sem hann hafi heyrt í morgun, telji hann að lýsing Einars Ágústs af atburðum næturinnar sé trúverðugri en saga mannsins sem ásakar hann á samfélagsmiðlum.
„Það var að minnsta kosti enginn hamar hér. Ég myndi setja þetta upp sem sjálfsvörn,“ segir hann. „Ég vil helst ekki að Einar sé dæmdur að ósekju, nóg hefur þetta verið í gegnum tíðina, og mér heyrist af því sem ég hef séð eftir að ég vaknaði í morgun að þarna sé einhver að fara frjálslega með sannleikann og það sé ekki Einar,“ segir Bjarni.