Íris er móðir 9 ára stúlku með ADHD. Hún hefur kært starfsmann Gerðaskóla til lögreglu eftir að hún horfði á starfsmanninn snúa dóttur hennar niður og þrýsta andliti hennar niður í gólfið eftir að dóttir hennar hafði klórað loftið í áttina að honum, til að líkja eftir ketti, í mótmælaskyni. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld og á Vísir.is.
Dóttir Írisar var oft tekin úr tímum og sett inn í það sem kallað var hvíldarherbergi, en Íris segir að hafi bara verið gluggalaus kompa án loftræstingar. Þar hafi dóttir hennar verið lokuð inni, eins og hún komst að einn daginn er hún var að sækja hana í skólann. Segir Íris að dóttir hennar sé í öðrum skóla núna þar sem öðruvísi sé tekið á málum og henni líði þar miklu betur.
„Og henni er haldið lokaðri þar inni. Hún er tekin á höndum og fótum og hent inn í þetta herbergi í brjáluðu skapi þar sem er búið að brjóta á henni,“ sagði Íris við Stöð 2 um meðferðina á dóttur hennar.
Lögreglan á Suðurnesjum staðfesti við fréttastofu Stöðvar 2 að mál sé í rannsókn þar sem starfsmaður skóla í umdæminu sé grunaður um að hafa beitt barn ofbeldi.