Heilt ár var í gær liðið frá því að Rudy Guiliani, ráðgjafi Donalds Trumps, sem þá hafði nýlega tapað fyrir Joe Biden í forsetakosningunum vestanhafs, hélt blaðamannafund á Four Seasons Total Landscaping. Óhætt er að segja að staðsetningin hafi vakið mikla furðu, enda sjaldséð að fulltrúar forseta Bandaríkjanna haldi fundi í bílskúr garðyrkjufyrirtækis. Hvað þá garðyrkjufyrirtæki sem á kynlífstækjaverslun og líkbrennslu sem nágranna.
Síðar kom auðvitað í ljós að fundinn átti að halda á Four Seasons hótelinu í Philadelphia, einu því allra flottasta í bænum en það var einnig aðeins fimm húsalengjum frá höfuðstöðvum kjörstjórnar þar sem talning atkvæða fór fram. Litlu munaði á frambjóðendunum í Pennsylvaníu.
Til að bæta gráu ofan á svart þá tilkynnti fréttaveitan AP aðeins örfáum mínútum eftir að Guiliani hóf mál sitt á mislukkaða blaðamannafundinum að Biden hefði unnið Pennsylvaníu og væri þar af leiðandi næsti forseti Bandaríkjanna. Þau skilaboð bárust Guiliani ekki fyrr en eftir að hann lauk máli sínu, svo í dágóðan tíma hélt hann ræðu út frá þeim upplýsingum að slagurinn væri enn óráðinn, á meðan allir fjölmiðlar heims krýndu Joe Biden sem sigurvegara.
Stólpagrín var gert að Guiliani og Trump teyminu öllu fyrir þessi mistök þeirra og gerðu þáttastjórnendur bandarískra grínþátta sér mat úr fundinum næstu vikur. Má þar nefna Stephen Colbert, Seth Meyers, James Corden, Jimmy Fallon og nafni hans Kimmel. Brot úr einum slíkum má sjá hér að neðan.
Þá naut Marie Siravo, eigandi Four Seasons Total Landscaping, töluverðrar athygli í kjölfar fundarins. Lék hún meðal annars í auglýsingu fyrirtækisins Fiverr sem birtist í einu dýrasta auglýsingaplássi heims, í miðri útsendingu frá Ofurskálinni. Þá bættust þúsundir við fylgjendahóp Four Seasons Total Landscaping á samfélagsmiðlum sem brugðust við með því að selja stuttermaboli, derhúfur, kaffibolla og annan slíkan varning merktu fyrirtækinu. Má því ætla að að eigendurnir hafi átt býsna gott ár í kjölfar fundarins, annað en Guiliani og Trump, sem flúðu báðir Washington D.C. Sá síðarnefndi hefur ekki snúið til baka síðan.